Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 02. október 2013 09:00
Björn Pálsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eftirminnilegt sumar á enda
Björn Pálsson
Björn Pálsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Víking en Björn Pálsson gerir upp sumarið þeirra í pistli hér að neðan.



Sumarsins 2013 var beðið með mikilli eftirvæntingu í Ólafsvík enda átti Víkingur í fyrsta skipti lið í efstu deild á Íslandi eftir skemmtilegt tímabil í fyrra. Biðin var hins vegar ekki bara full eftirvæntingar heldur líka löng! Það stytti okkur þó stundir að fá skemmtilega leiki í Lengjubikarnum sem við komumst ágætlega langt í en tap í jöfnum undanúrslitaleik gegn Breiðabliki var endastöðin í þeirri keppni þetta árið. Æfingaferðin til Spánar var líka ágætis gulrót í hugum metnaðarfullra leikmanna sem eyddu þrotlausum stundum í Sporthúsinu, Kórnum, sparkvelli við Fífuna, Safamýri og svo auðvitað í hinu eldhressa Sólarsporti, íþróttahúsinu í Ólafsvík að ógleymdum hinum iðagræna sparkvelli í Ólafsvík.

Sumarið kom svo loksins á endanum (alla vega skv. dagatalinu) og gott var að fá allan hópinn saman í fleiri en einn dag í einu. Leikmenn hreiðruðu um sig á heimilum sínum og hið daglega líf hófst með vinnu, æfingum og dýrindis máltíðum á Hobbitanum.
Æfingar á Hellissandi í alls konar veðrum voru býsna áberandi til að byrja með enda vellir landsins viðkvæmir. Þrotlaus vinna vinnuþjarkanna á Ólafsvíkurvelli dugði víst ekki til enda miklar kröfur gerðar til gæða vallanna í sjálfri Pepsi deildinni. En þetta var bara hressandi!

Fyrsti leikur datt í hús og það í beinni í besta sætinu. Greinilegt var á liðinu í þeim leik og fyrstu umferðunum að það var talsverður skjálfti í mönnum. Hvað svo sem olli því. Einhvers konar reynsluleysi og undirliggjandi stress í bland við töluverðar væntingar, litla breidd og meiðsli ollu því að afrakstur fyrstu 8 leikjanna var einungis 1 stig. Ég held ég fari ekki offari þegar ég segi að langflestir voru búnir að afskrifa Víkingana úr Ólafsvík eftir þessa byrjun. Og ég er svo sem ekkert hissa á því.

Eftir þessa 8 fyrstu leiki fór hins vegar að sjást sá bolti sem undirritaður vissi alltaf að byggi í liðinu. Að mínu mati hófst sú uppsveifla reyndar í 8. umferð í Frostaskjólinu. Sá leikur var býsna vel spilaður að hálfu Víkinganna úr Breiðafirðinum en eins og áður var uppskeran engin og svekkjandi 2-1 tap staðreynd. Leikmenn voru hins vegar ekki af baki dottnir og ég held að allir innan liðsins hafi skynjað það, þrátt fyrir tapið gegn KR, að við værum ekki eins slakir og allir sögðu. Í kjölfarið fylgdi svo 5 leikja taplaus hrina sem gaf okkur 9 stig og svo skömmu seinna kom fjögurra leikja jafnteflishrina sem eins og talnaglöggir lesendur sjá að gaf okkur 4 stig. Og viti menn, við vorum allt í einu komnir inn í mótið aftur. Eitthvað sem enginn bjóst við í lok júní.
En þessi viðsnúningur kom ekki af sjálfu sér. Í fyrsta lagi vil ég nefna það hvernig leikmenn, undir stjórn þjálfarans, hengdu ekki haus þrátt fyrir mótlæti. Í stað þess að gefast upp ákváðum við að leggja meira í æfingarnar, hugsa enn betur um okkur en áður og svo má að sjálfsögðu ekki gleyma þætti stjórnarmanna og þjálfara sem sóttu öfluga leikmenn til Spánar og skiluðu þeim erlendu leikmönnum sem höfðu verið áður og lentu annaðhvort í meiðslum eða sátu á bekknum. Síðast, en alls ekki síst, héldu stuðningsmenn áfram að styðja við bakið á okkur. Hversu oft halda stuðningsmenn áfram að styðja lið með svo rýra uppskeru? Ég held ég geti fullyrt að í 95% tilfella hættir fólk með öllu að mæta á leiki og sýnir engan stuðning. En það gerðu stuðningsmenn Víkings ekki. Saman náðum við að koma Víkingi aftur inn í mótið og getum að mínu mati verið stolt af því.

En (alltaf þetta stóra „en“!) því miður dugði þetta ekki til þegar upp var staðið. Liðin í kringum okkur sóttu stig í leikjum þar sem enginn bjóst við stigum frá þeim og á endanum sigu þau fram úr okkur á meðan við gerðum of mikið af jafnteflum í leikjum sem við hefðum með örlitlum skammti af (sjálfskapaðri) heppni getað unnið. Sextán stig úr umferðum 9-20 dugðu því miður ekki sem allir innan Víkings eru gríðarlega svekktir með enda sjáum við greinilega hvernig hlutirnir hefðu vel getað endað okkur megin.

Afskaplega lærdómsríkt tímabil því að baki fyrir Víking frá Ólafsvík. Tímabil sem félagið getur samt sem áður verið stolt af að mínu mati. Víkingur spilar vonandi aftur á meðal þeirra bestu og þá mun reynsla þessa sumars vinna með félaginu.

Kærar þakkir fara til allra í kringum liðið sem lögðu hönd á plóg við að útbúa ógleymanlegar minningar. Það krefst mikillar vinnu að halda uppi svo góðu liði og vonandi mun sú vinna halda áfram.
Lifi Víkingur Ólafsvík.

P.S. Stuðningsmenn...þið voruð miklu meira en frábær!
Athugasemdir
banner
banner
banner