Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 03. október 2013 09:00
Almarr Ormarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sjálfsmarkaregn
Almarr Ormarsson
Almarr Ormarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Fram en Almarr Ormarsson gerir upp sumarið hjá þeim bláklæddu.



Þegar hausta tók í Safamýrinni og fagurgrænt gervigrasið tók við af gulleitu æfingasvæðinu voru menn stórhuga og bjartsýnir á komandi tíma enda nýtekin við sjöunda stjórnin á fjórum árum (eða svo). Drógu menn fram ávísunarheftið og leitað var um víða veröld að leikmönnum sem gætu fyllt skarð þeirra sem höfðu siglt á önnur höf.

Ég hef sjaldan verið jafn ánægður með komu nýrra manna, því þótt þeir væru misgóðir knattspyrnulega séð, komu þeir allir með eitthvað sem okkur vantaði í klefann. Viktor var með þrjár bikarmedalíur um hálsinn en slíkar hafa ekki sést í framhúsinu síðan á gullárunum svokölluðu, Óli Bjarna kom með aldur sem enginn hafði heyrt um, Bjarni Hólm lumaði á töfrabrögðum og majónesuppskriftum, Haukur Baldvins lagaði minnimáttarkenndina sem hefur hrjáð mig lengi, Jordan Hálsmen náði lengsta sippi sem ég hef séð og Halldór “Dúddi” Arnarsson sagði okkur sögur af glæpum og slagsmálum sem kórdrengirnir í liðinu supu hveljur yfir. Auk þessara fagmanna kom fjöldinn allur af mönnum á reynslu og ber þá helst að nefna Bandaríkjamennina tvo sem kenndu okkur hvernig á að snúa sér hægt með bolta og hvernig best er að reyna ekki of mikið á markmennina í skotæfingum.

Veðurfræðingurinn og formaðurinn Binni sá fram á leiðindar sumar, veðurfarslega séð, svo hann brá á það ráð að skella sér í golfferð til Spánar með konu sinni. Einn var þó hængur á, ferðin kostaði nefnilega skildinginn svo hann fékk þá snilldarhugmynd að láta okkur leikmennina safna fyrir henni en við kröfðumst þess á móti að fá að fara með. Eftir langar og strangar samningaviðræður og sölu á bosnískum klósettpappír stigum við upp í flugvél og héldum á vit ævintýranna. Þegar á leiðarenda var komið kom þó í ljós að þar var enginn fótboltavöllur heldur var þetta vinsælt æfingasvæði fyrir boccia spilandi gamalmenni frá Bretlandi en við létum ekki deigan síga heldur köstuðum kúlum í átt að öðrum kúlum þangað til við gátum ekki meir en á kvöldin brugðu menn gjarnan á það ráð að fara í leyfisleysi í heita potta til að mýkja kastvöðvana.

Af æfingarferðinni má annars nefna að Bretarnir í liðinu gistu ekki á dýnum, við eyddum meiri tíma í bílnum hans Pedro en í takkaskóm, Orri Gunn neitaði að hjóla á tunnu og Hólmbert Aron Briem Friðjónsson saknaði afa síns á æfingum.

Öll ævintýri taka sinn enda svo við sigldum aftur heim til þess að gera jafntefli við Völsung í deildarbikarnum og máttum vel við una.

Mótið fór vel á stað, fyrsti leikur var í Ólafsvík þar sem hótelstjórinn í bænum tók vel á móti okkur. Ég var reyndar mjög hissa þegar ég sá að Gunnar á Völlum var ekki í hóp hjá Víkingum en hann var eini leikmaður liðsins sem ég þekkti. Það kom ekki að sök og við unnum sterkan útisigur á velli sem reyndist síðar vera sterkasti heimavöllur landsins.

Engin man lengur úrslit næstu leikja en þegar stutt var liðið á mótið ákvað besti leikmaður Hörpudeildarinnar 1989, Þorvaldur Örlygsson, að víkja úr starfi enda voru alltof margir sköllóttir með dýr bindi að starfa í kringum félagið. Hinir hárprúðu Ríkarður Daðason og Auðun Helgason tóku við liðinu og héldu töflufund þar sem Kristinn Ingi spurði þá spjörunum úr. Þeirra fyrsta æfing er sennilega frægasta æfing íslensks félagsliðs frá upphafi en á henni voru 17 ljósmyndarar að mynda vandræðagang manna við að opna lás á mörkum. Þá kom í ljós að síðasta verk Todda í mýrinni hafði verið að skipta um alla tölulása svo engin gat opnað neitt þannig að við stilltum bara upp í “shadow” leik án marka og bolta.

Í framhaldinu spiluðum við fleiri leiki, t.d. á móti Gróttu sem við rústuðum í uppbótartíma framlengingar þar sem leikmaður númer átján fór á kostum en Viggó Viðutan tísti af ergju í kjölfarið.

Hápunktur sumarsins var bikarúrslitaleikur gegn Silfurskeiðinni. Ég hafði ekki heyrt um það lið áður en komst reyndar að því þegar leið á leikinn að þetta var Stjarnan úr Garðabænum sem hafði saumað nýtt merki á búninga sína. Skemmst er frá því að segja að þetta var skemmtilegasti úrslitaleikur í manna minnum og fékk Ögmundur “Pizza” Kristinsson að lyfta fyrsta bikar Fram síðan hann sjálfur var að verða að hugmynd. Þá var glatt í höllinni og varaði fjórfaldur bikarmeistari Viktor Bjarki stuðningsmenn Fram við því að ganga ekki of hratt í gegnum gleðinnar dyr en þakið fór engu að síður af Safamýrinni svo handboltaliðin okkar verði að spila undir berum himni nú í vetur.

Síðast þegar Fram spilaði bikarúrslitaleik var það síðasti leikur mótsins en KSÍ gleymdi að senda fréttablaðið í Mýrina svo við vissum ekki að þessu hefði verið breytt og hættum því alfarið að æfa okkur og að mæta í leiki. Því vannst ekki leikur á seinni hluta tímabilsins en við sluppum þó við fall enda hræddi Tómas Leifsson drauginn úr Safamýrinni fyrir nokkrum árum.

Ég bið ykkur vel að lifa og þakka um leið lesturinn, að lokum vil ég þakka kjúklingunum í liðinu en þeir sáu til þess að við þyrftum aldrei að æfa með bolta sem höfðu sæmilegt loftmagn.

Bless.

Sjá einnig:
Eftirminnilegt sumar á enda - Víkingur Ó.
Falllegt tímabil - ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner