Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   þri 08. október 2013 09:00
Fjalar Þorgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af litlum Nesta verður oft mikið bál
Fjalar Þorgeirsson
Fjalar Þorgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Valsmönnum en markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson ritaði pistilinn hér að neðan.



,,Viltu appelsínu Börkur“ var setningin sem var kveikjan að bálinu mikla í Kaplakrika í lok september. ,,Þarft þú ekki að fá þér eitthvað meðal Jón?“, var svarið við þessu. Þá kom þriðji aðilinn og öskraði yfir mannskapinn: ,,Ég heiti ekki Vúðlík, ég heiti Lúðvík“ og allt varð gjörsamlega brjálað. Á meðan var Daffyd ennþá að rífast við dómarann eftir að hann lét (efri) góma sig með slæmt orðbragð við hann. Afganginn af þessari sögu þekkja allir og mikilvægt að öll dýrin í skóginum enduðu sem vinir.

Veturinn hjá okkur Valsmönnum var fjölbreyttur svo ekki sé meira sagt, 5 æfingar í viku á 4 mismunandi stöðum. Sú hugmynd kom upp að breyta nafni liðsins í FC Gipsy en var fellt með oddaatkvæði á miklum baráttufundi. Í kringum áramótin tókum við svo þátt í matreiðsluþættinum Food Sal og lentum þar í öðru sæti á eftir Ólsurum sem elduðu hið margrómaða Balkan Tapas með sjókokkinn E. Hjörleifs. fremstan í flokki. Rikka gjörsamlega kolféll fyrir þessum rétti og eftir sátum við með sárt ennið enda elduðum við einungis pulsu með Vals-tómatsósu í úrslitaþættinum.

Hin hefðbundnu undirbúnigsmót hófust svo eftir áramót og í stuttu máli gengu þau ágætlega. Maðurinn sem oft er nefndur Undrið frá Afríku setti hvert markið á fætur öðru og sannaði sem um munar að af litlum Nesta verður oft mikið bál. Sannarlega góð fyrirheit fyrir sumarið.

Íslandsmótið byrjaði vel, 14 stig úr fyrstu 6 leikjunum og við vorum á toppnum. Næst tók við hrina af jafnteflum sem gefa alveg óskaplega lítið, nánar tiltekið 1/3 stigana sem fæst fyrir sigur. Glugginn opnaði svo um miðjan júlí og greinilegt að við ætluðum okkur stóra hluti þar. Takefusa fór að vinna á Tokyo Sushi í Álfheimum en í staðinn var mættur enginn annar en Ian Cambell Hogg, eða King Hoggy eins og hann er kallaður. Eftir eina æfingu var ljóst að The Hoggmæster myndi bera höfuð og herðar yfir aðra í deildinni og til þess að niðurlægja ekki okkur hina fannst honum það réttast að snúa eftur til sín heima. Við Valsmenn enduðum hins vegar mótið ágætlega og uppskárum 5. sætið sem var sanngjarnt þó við hefðum viljað enda ofar í töflunni. Eitthvað sem þarf að byggja ofan á og bæta næsta sumar.

Þessi pistill var byggður á sannsögulegum atburðum.

Kv. Fjalli 5000
Athugasemdir
banner