Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 04. október 2013 09:00
Ómar Jóhannsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Skítugur sokkur
Ómar Jóhannsson
Ómar Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Keflavík en markvörðurinn Ómar Jóhannsson fór yfir tímabilið hjá þeim.



Það fór ekki mikið fyrir okkur Keflvíkingum í vetur frekar en fyrri daginn. Helst var það að frétta í leikmannamálum að Guðmundur nokkur Steinarsson ákvað að skipta í grænt og eftir varð þónokkurt skarð að fylla í. Helst saknaði ég hans úr stutta spilinu á æfingum þar sem hann stóð undantekningalaust við hliðina á markinu og vildi fá boltann strax til að skjóta eða gefa langann. Þá björguðum við Magnúsi „Mattaranum“ Mattíassyni úr borg óttans rétt fyrir æfingaferð okkar til Spánar. Þar sagði hann okkur sorasögur úr Sódómu og hétum við leikmenn Keflavíkur því að missa aldrei aftur góðan dreng í þann ólifnað sem lýðst þar, svo fengum við okkur Sprite og fórum að sofa.

Áður en mótið hófst fóru að sjálfsögðu spákerlingarnar af stað en kom það okkur gríðarlega á óvart að vera ekki spáð titlinum. Grenjuðum við hátt og snjallt allir í kór langt fram eftir sumri yfir þessari hræðilegu spá sem auðvitað átti ekki við nein rök að styðjast. Eftir glæsilega spilamennsku í allt sumar tróðum við svo loks skítugasta sokk landsins upp í kerlingarnar og björguðum okkur endanlega frá falli í næst síðustu umferð. Við nutum svo lífsins það sem eftir var móts og spiluðum pressulausir til tilbreytingar, einn leik. Hugsanlega var samt aðeins of mikið gert úr þessu grenji okkar yfir spádómum en hvað um það. Einn maður blés þó á allar hrakspár sumarsins sem að Keflavík snéru. Már Gunnarsson tók við keflinu sem Drummerinn hafði lagt frá sér fyrir einhverju síðan og blés ekki bara okkur leikmönnum eldmóð í brjóst heldur flest öllum sem honum kynntust í sumar.

Þrátt fyrir að alltaf sé sól og blíða í Keflavík verður ekki það sama sagt um önnur krummaskuð landsins. Við skelltum okkur í tæpa viku til Vestmannaeyja og eftir að hafa barist við rokið í 90 mínútur skoðuðum við bæinn í 3 daga. Þegar búið var að ákveða að éta Dóra fyrst ef við yrðum fastir mikið lengur á eyjunni (ekki bara vegna þess að hann er einstaklega kjötmikill heldur fannst okkur dónalegt að byrja á eina útlendingnum í liðinu) var farið í spurningakeppni. Seinna um sumarið fórum við svo rúnt á Blönduós og til baka. Héldum við leikmenn að við værum að fara spila leik á Akureyri en kom í ljós að við vorum einungis tilraunadýr fyrir Geysi sem var að prufukeyra nýja rútu. Við fórum bara seinna á Akureyri, það var fínt. Höfum við Keflvíkingar lagt það fyrir hjá KSÍ að Íslandsmótið 2014 verði spilað að öllu leiti í Keflavík til að tryggja að engum leik þurfi að fresta. Skylst okkur að alltaf sé blíða í Garðinum líka ef Keflavíkurvöllur væri upptekinn.

Annars er bara enn eitt sumarið búið og eftir stendur að við erum ennþá í efstu deild. Margir gerðu sér grein fyrir því að sumarið gæti orðið erfit í Sunny (já við líka). Það ber að fagna því að fá að spila meðal þeirra bestu hér á landi en liðin sem stóðu sig frábærlega í evrópukeppnunum í sumar sýndu að íslenska deildin er ekki svo slæm. Ef litið er á stígandann í liðinu fram eftir sumri þarf ekki að örvænta í Keflavík. Mikil vinna er fram undan en öðruvísi næst ekki árangur. Eitt er ljóst að mikið verður lagt á sig til þess að gera betur á næsta ári. Hvort það tekst verður tíminn að leiða í ljós en fólkið er til staðar, bæði innan og utan vallar, til þess að gera flotta hluti í Keflavík.

KR og Fram til hamingju.

Sjáumst að ári.

Sjá einnig:
Sjálfsmarkaregn - Fram
Eftirminnilegt sumar á enda - Víkingur Ó.
Falllegt tímabil - ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner