Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 15. júlí 2024 20:41
Ívan Guðjón Baldursson
FCK hafnaði 15 milljónum evra frá Girona fyrir Orra Stein
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Danski miðillinn Tipsbladet greinir frá því að stórveldið FC Kaupmannahöfn hafi hafnað veglegu kauptilboði fyrir íslenska framherjann Orra Stein Óskarsson frá spænska félaginu Girona.

Orri Steinn er 19 ára gamall og vakti athygli á sér með að skora 14 mörk í 40 leikjum með FCK á síðustu leiktíð.

Tipsbladet segir að FCK hafi hafnað tilboði frá Girona sem hljóðar upp á rúmlega 100 milljónir danskra króna, sem samsvara tæpum 15 milljónum evra - eða rúmum 2 milljörðum íslenskra króna.

Girona var spútnik lið síðasta tímabils í spænsku deildinni og endaði í þriðja sæti. Liðið er því með sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð og ef því tekst að krækja í Orra Stein mun hann spila með gífurlega spennandi leikmönnum.

„Mér er nokkuð sama um áhuga og tilboð frá öðrum félögum. Ég æfi og spila fótbolta og reyni að ná í þrjú stig úr hverjum leik. Þetta breytir ekki miklu fyrir mig," sagði Orri þegar hann var spurður út í framtíðina sína eftir æfingu í dag.

„Þegar ég kem heim á kvöldin þá fer ég í PlayStation. Það er ekki mikið sem ég þarf að hugsa um.

„Auðvitað get ég séð sjálfan mig fyrir mér hjá öðru félagi á einhverjum tímapunkti, en ég veit ekki hvenær það gerist. Þegar ég kom til Kaupmannahafnar sem 15 ára strákur þá var markmiðið mitt að fara til stærra félags í framtíðinni. Hvort sem það gerist núna eða eftir eitt ár get ég ekki sagt.

„Það hefur alltaf verið draumur fyrir mig að spila í ensku úrvalsdeildinni, allt síðan ég var lítill strákur."


Orri var spurður hvað honum finnst um að FCK hafi hafnað kauptilboðinu frá Girona.

„Mér finnst þetta sanngjarnt, félagið vill halda mér. Þetta er eitthvað sem þeir stjórna. Þið getið spurt mig að spurningum en ég er ekki endilega með svörin, mín einbeiting fer öll í að æfa vel á hverjum degi og vera tilbúinn fyrir upphaf næstu leiktíðar."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner