Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   lau 15. nóvember 2025 22:59
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Úkraínu: Við erum að berjast fyrir alla þjóðina
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Serhiy Rebrov, þjálfari Úkraínu, segir að það muni koma í ljós á morgun úr hverju leikmenn landsliðsins eru gerðir þegar þeir mæta Íslandi í hreinum úrslitaleik um umspilssæti fyrir HM.

Úkraína þarf sigur til þess að komast í umspilið en Íslandi nægir aðeins eitt stig.

Síðast þegar þjóðirnar mættust unnu Úkraínumenn 5-3 sigur á Íslandi í einum furðulegasta leik í manna minnum, en Rebrov vonast til að halda í ýmsa þætti úr þeim leik.

„Við þurfum að halda í það sem við gerðum á Íslandi, þessar snöggu sóknir sem við áttum í fyrri hálfleiknum þegar við skoruðum mörk, fráköstin sem við fengum í seinni hálfleiknum sem við skoruðum líka úr. Við verðum að halda í þessa þætti leiksins, en á morgun verðum við árásargjarnari. Við spilum heima og þurfum aðeins ein úrslit, þannig við verðum að hugsa um að vinna leikinn.“

Georgyi Sudakov, lykilmaður Úkraínu, er ekki með vegna meiðsla, en það verður mikill missir fyrir heimamenn að hafa hann ekki með í þessum leik.

„Já, því miður er Sudakov ekki með. Hann er farinn aftur til Benfica til að meðhöndla meiðslin. Ég vissi ekki einu sinni í upphituninni að hann væri meiddur, en eftir fyrri hálfleikinn sagðist hann hafa fundið fyrir sársauka. Um morguninn létum við skoða hann og þá reyndust meiðslin alvarleg. Hann tók ekki eina æfingu með okkur.“

Á morgun mun koma í ljós úr hverju Úkraínumenn eru gerðir að sögn Rebrov og að allir í landsliðinu séu að berjast fyrir þjóðina.

„Ég er viss um að strákarnir vildu vinna fyrri leikinn þegar staðan var 3-3 og þess vegna komumst við yfir. Við vorum samt ekki ánægðir með stöðuna. Það sama mun eiga við á morgun og þó við skorum þá þýðir það ekki að við ætlum að fara aftar á völlinn.“

„Á morgun mun reyna á karakterinn. Leikmennirnir sem mæta til leiks verða að vera baráttuhundar því við erum að berjast fyrir alla þjóðina. Stuðningurinn á eftir að vera frábær og þar verða margir Úkraínumenn og Pólverjar sem munu líka styðja okkur.“

„Það er erfitt að segja ykkur öll sjónarmið af því hvernig við munum spila, en það sem ég er að við verðum að sýna karakter gegn Íslandi,“
sagði Rebrov á fréttamannafundinum í dag.

Leikurinn hefst klukkan 17:00 og er í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner