Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 16. maí 2023 16:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ræddu höggið þunga í Eyjum - „Bara eins rautt og það verður"
Sandra María fékk þungt högg í Vestmannaeyjum.
Sandra María fékk þungt högg í Vestmannaeyjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Holly Taylor O'Neill hér í leik með ÍBV.
Holly Taylor O'Neill hér í leik með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Shaina Faiena Ashouri, fyrirliði FH.
Shaina Faiena Ashouri, fyrirliði FH.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Holly O'Neill, leikmaður ÍBV, var dæmd í tveggja leikja bann af KSÍ á dögunum fyrir ljótt brot í leik gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna.

„Þetta er bara eins rautt og það verður," sagði Jón Stefán Jónsson, fyrrum þjálfari Þórs/KA, þegar rætt var um brotið í Heimavellinum í síðustu viku. Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, fékk olnbogaskot í andlitið frá Holly. „Þetta er eldrautt."

„Það þarf að sauma fimm spor. Það er alvöru högg sem þarf til þess."

„Ég sá myndir af munninum á aumingja Söndru Maríu. Þessi sigur kostaði fimm spor," sagði Mist Rúnarsdóttir í þættinum en það var komið inn á það í þættinum að Sandra hefði þurft að vera á fljótandi fæði í nokkra daga eftir höggið.

„Hún er búin að vera með einhvern höfuðverk og eitthvað. Þetta hefur verið dúndurhögg," sagði Jón Stefán en Sandra kláraði leikinn gegn ÍBV og skoraði sigurmarkið þar. Hún var einnig á skotskónum í gær þegar Þór/KA vann frábæran sigur á Breiðabliki.

Hægt er að sjá myndband af atvikinu úr Eyjum - af vef Vísis - hér fyrir neðan.



Það er pjúra rautt spjald
Einnig var rætt um annað atvik sem átti sér stað í Bestu deild kvenna á dögunum. Shaina Ashouri, fyrirliði FH, átti þar eflaust að fá rautt spjald fyrir að gefa Hugrúnu Pálsdóttur, leikmanni Tindastóls, olnbogaskot. Shaina skoraði mark FH í leiknum - sem endaði 1-1 - en nokkru áður gaf fyrirliði FH Hugrúnu olnbogaskot.

Ekkert var dæmt á atvikið. „Ég sá myndband af þessu. Það er pjúra rautt spjald. Eldrautt. Hún gefur Hugrúnu þungt olnbogaskot og ef dómarateymið hefði séð það, þá er það engin spurning," sagði Jón Stefán, sem er fyrrum þjálfari Tindastóls, í þættinum.

„Hún var stálheppin," bætti hann svo við um Shainu en það er spurning hvort KSÍ aðhafist eitthvað í málinu.

Vitað er að nokkur mál eru til skoðunar hjá KSÍ þessa stundina en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, vildi ekki tjá sig um einstaka mál í dag.

Anna María Baldursdóttir, leikmaður Stjörnunnar, fór í tveggja leikja bann fyrir stuttu eftir skoðun myndbandsupptöku og því gæti Shaina mögulega líka verið á leið í bann ef til eru nægilega góð myndbönd af atvikinu.

Hægt er að hlusta á Heimavöllinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Heimavöllurinn: 5 spor, olnbogar og Ziemer screamer
Athugasemdir
banner
banner