Stefán Teitur Þórðarson (ÍA)
Stefán Teitur Þórðarson, miðjumaður ÍA, er leikmaður fyrstu umferðar í Pepsi Max-deildinni hjá Fótbolta.net. Stefán Teitur átti frábæran leik í 3-1 sigrinum á KA á sunnudag en hann skoraði tvö mörk í leiknum.
Síðara markið skoraði Stefán Teitur með glæsilegu skoti af löngu færi en þar kom hann ÍA yfir 2-1.
„Við vorum búnir að tala um það í hálfleik að skjóta, það var mikill vindur sem bættist í. Þetta var geggjað," sagði Stefán Teitur við Fótbolta.net eftir leik.
Rætt var um frammistöðuna hjá Stefáni Teiti í Innkastinu á Fótbolta.net í gærkvöldi.
„Stefán Teitur skoraði tvö mörk. Hann skoraði eitt mark í fyrra. Hann tvöfaldi fjöldann í fyrsta leik," sagði Ingólfur Sigurðsson í Innkastinu í gær.
„Mér finnst hann vera orðinn betri en í fyrra og mér fannst það vera mjög áberandi í þessum leik. Hann byrjar að spila á miðjunni í fyrra og fær mikið lof þá, kannski of mikið ef eitthvað er."
„Ég var þeirrar skoðunar að hann ætti eftir að læra ýmislegt með boltann og hann hefur unnið í því. Hann er með geggjaðan þjálfara (Jóhannes Karl Guðjónsson) til að kenna sér að spila miðju. Ég hlakka mikið til að sjá hann í næstu leikjum," sagði Ingólfur.
Í Innkastinu á sunnudaginn var einnig rætt um Stefán Teit en Breiðablik hefur sýnt honum áhuga. Stefán fór einnig til norsku liðanna Sarpsborg og Álasund á reynslu í vetur.
„Hann er ekki á leið í Breiðablik. Hann er að fara út í atvinnumennsku. Það er hans næsta skref," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu á sunnudag.
„Það voru lið á Norðurlöndunum að skoða hann í vetur og ef hann ætlar að spila svona í sumar þá fer hann út. Það eru teikn á lofti," sagði Magnús Már Einarsson.
Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.
Sjá einnig:
Spá því að Stefán Teitur fari í atvinnumennsku
Athugasemdir