Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 17. mars 2021 12:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Höskulds: Leikmenn eiga hrós skilið fyrir hugarfarið
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Siggi með Emil Berger, nýjum leikmanni Leiknis.
Siggi með Emil Berger, nýjum leikmanni Leiknis.
Mynd: Leiknir.com
Menn eru brattir í Breiðholtinu.
Menn eru brattir í Breiðholtinu.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Leiknir Reykjavík mun í sumar leika í efstu deild karla öðru sinni. Síðast spiluðu þeir í efstu deild 2015 og fóru beint niður aftur. Núna, sex árum síðar, er liðið komið aftur upp.

Sigurður Heiðar Höskuldsson stýrir Leikni en hann kom liðinu upp á sínu fyrsta heila tímabili sem þjálfari liðsins. Hann segir að veturinn hafi gengið vel.

„Við erum nokkuð ánægðir með veturinn hjá okkur. Við höfum æft af meiri krafti en síðustu ár og leikmenn eiga hrós skilið fyrir hugarfarið sem þeir hafa sýnt í vetur. Við höfum unnið að því að bæta ýmis atriði hjá okkur frá síðustu tveimur árum og erum á góðu róli hvað það varðar. Við erum líka nokkuð ánægðir með frammistöðuna í leikjum vetrarins og þau atriði sem við höfum verið að reyna að bæta þar," segir Sigurður Heiðar í samtali við Fótbolta.net.

Staðan á hópnum
Siggi segir að staðan á hóp Leiknismanna sé nokkuð góð en meiðsli hafi verið að stríða þeim eilítið á undirbúningstímabilinu.

„Staðan á hópnum er ágæt. Við höfum verið að basla við meiðsli hjá nokkrum mönnum eins og önnur lið. Binni, Sólon og Ágúst Leó eru að komast í gang núna eftir erfið meiðsli í vetur. Aðrir hafa verið að lenda í hnjaski hér og þar, sem fylgir þessu," segir þjálfari Leiknismanna.

„Ernir Bjarna meiddist lítillega á ökkla gegn Fjölni um daginn. Það er ekki svo alvarlegt og Ernir Bjarnason er bara þannig gerður að hann verður kominn til baka áður en við vitum af. Ég hef því litlar áhyggjur af honum."

„Heilt yfir finnst mér við hafa tekið góð skref hvað varðar líkamlega þáttinn og vonandi að það verði fleiri skref tekin fram að móti."

Nýir leikmenn
Leiknismenn hafa bætt við sig tveimur leikmönnum frá því að síðasta tímabili lauk. Sænski miðjumaðurinn Emil Berger samdi við félagið en hann hefur áður spilað hér á landi. Það gerði hann árið 2013 en þá lék hann með Fylki. Varnarmaðurinn Loftur Páll Eiríksson gekk einnig í raðir Leiknis frá Þór á Akureyri.

Það er von á einum, jafnvel tveimur, leikmönnum til viðbótar í Breiðholtið áður en Íslandsmótið hefst.

„Tveir leikmenn hafa bæst við hópinn hjá okkur frá því í fyrra, Emil Berger og Loftur Páll. Þeir hafa smollið einstaklega vel inn í hópinn, reynslumiklir báðir tveir og með hugarfar sem við viljum sjá í Leiknisklefanum," segir Siggi.

„Von er á tilkynningu um annan leikmann núna í vikunni og mögulega einum til viðbótar. Annars erum við mjög ánægðir með hópinn og líklega alveg hættir að líta nokkuð í kringum okkur."

Einn leikmaður liðsins, Máni Austmann, er í námi í Bandaríkjunum en það er búist við því að hann verði mættur fyrir mót og klári tímabilið.

„Máni Austmann er sá eini í hópnum sem er í skóla í Bandaríkjunum en verður mættur þegar mótið fer af stað. Það er ekki alveg á hreinu hvenær hann fer aftur út en við búumst við því að hann nái að klára tímabilið hjá okkur."

Brattir í Breiðholtinu
Eins og áður kemur fram verður þetta í annað sinn sem Leiknir spilar í efstu deild. Það er mikil eftirvænting fyrir tímabilinu auðvitað.

„Við erum brattir í Breiðholtinu. Mikil spenna og eftirvænting hjá öllum sem koma að félaginu að sjálfsögðu. Margir leikmenn, auk þjálfara, að taka sín fyrstu skref í efstu deild og stemningin sjaldan verið betri. Uppgangurinn hjá liðinu síðustu 2-3 tímabil hefur verið þannig að við getum ekki leyft okkur annað en að vera bjartsýnir fyrir sumarið," segir Siggi en það verður spennandi að fylgjast með Leiknismönnum í sumar, á þeirra öðru tímabili í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner