Ísland spilar á morgun við Frakkland í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Englandi.
Ísland er með tvö stig fyrir leikinn og er með örlögin í höndum sér. Með sigri förum við áfram í átta-liða úrslit mótsins.
Ísland er með tvö stig fyrir leikinn og er með örlögin í höndum sér. Með sigri förum við áfram í átta-liða úrslit mótsins.
Leikurinn fer fram á New York leikvanginum í Rotherham en þar fóru fram fréttamannafundir í dag, hjá báðum liðum. Fréttamaður Fótbolta.net nýtti tækifærið og spjallaði við frönsku íþróttafréttakonuna Syanie Dalmat sem starfar fyrir hið risastóra L'Équipe íþróttablað.
Hún býst við því að Corinne Diacre, þjálfari Frakklands muni hreyfa aðeins við liðinu á morgun, það verði nokkrar breytingar. Franska liðið er komið áfram og búið að vinna riðilinn.
Dalmat telur að íslenska liðið sé það sterkasta í riðlinum fyrir utan Frakkland. Hún þakkar fyrir það að franska liðið sé komið áfram fyrir þennan leik og geti farið inn í hann nokkuð pressulaust.
„Að mínu mati er Ísland erfiðasti andstæðingur Frakklands í riðlinum. Ísland er besta liðið fyrir utan Frakkland. Ísland er með frábært lið og frábærar íþróttakonur. Ég man eftir leiknum 2017. Það var mjög erfiður leikur," segir Dalmat.
„Það eru frábærir leikmenn í liðinu og í Frakklandi þekkjum við (Söru Björk) Gunnarsdóttur. Þetta verður erfitt fyrir franska liðið því það er erfitt að mæta Íslandi, það er erfitt að spila gegn þeim. En það er engin pressa fyrir Frakka, við þurfum bara að passa upp á að engin meiðist. Við þurfum líka á því að halda að nái vel saman inn á vellinum fyrir framhaldið, að það haldi áfram - sú tenging."
Dalmat segir að liðið verði að finna lausn á framherjamálum sínum þar sem sóknarmaðurinn Marie-Antoinette Katoto, stærsta stjarna liðsins, er meidd.
Nefnir Glódísi sérstaklega
Hún var spurð að því hvaða leikmaður henni finnst mikilvægust fyrir íslenska liðið.
„Það er leikmaður í Bayern München, (Glódís Perla) Viggósdóttir. Ég sá hana spila í Meistaradeildinni í ár og hún var virkilega góð. Ég held að hún sé mikilvæg á morgun," segir Dalmat.
Glódís, sem á yfir 100 A-landsleiki, er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenska liðið. Það er ekkert leyndarmál.
Getur Frakkland farið alla leið?
Frakkland hefur aldrei unnið stórmót í kvennaboltanum þrátt fyrir að vera með mjög góð lið í gegnum tíðina. Getur liðið farið alla leið á þessu móti?
„Áður en Katoto meiddist þá spáði ég því að Frakkland myndi vinna mótið," segir Dalmat.
„En núna veit ég ekki. Þetta veltur á því hvernig næsti leikmaður kemur inn í liðið fyrir Katoto. Við erum með góða vörn, en á síðustu mótum hefur markaskorun verið vandamál. Við erum með Katoto en hún er meidd. Við þurfum að fá mörk og þá er þetta möguleiki."
Það er ljóst að Frakkland mun mæta ríkjandi Evrópumeisturum Hollands í átta-liða úrslitunum.
Athugasemdir