
Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson var skiljanlega svekktur eftir 3-1 tap Íslands gegn Slóveníu í Zilina í kvöld, en liðin mættust í vináttuleik.
„Þetta var mjög skrýtinn leikur. Við vorum bara með fínt "control" á leiknum yfir höfuð og ef eitthvað er áttum við að setja fleiri mörk. Síðan fáum við þetta klaufamark 1-1 og þeir fá smá "momentum" og sjálfstraust og sækja mikið á okkur. Svo fáum við upp úr þurru á okkur þetta annað mark sem var heppnisstimpill yfir," sagði Jón Daði við Fótbolta.net í Zilina.
Jón Daði hefur spilað sem framherji hjá landsliðinu en var settur á kantinn í dag eftir að Arnór Ingvi Traustason fór meiddur út af.
„Það kom bara óvænt út af meiðslunum. Ég var bara fyrstur sem var kallaður fyrir Arnór Ingva þegar hann meiddist og maður reynir bara að leysa þá stöðu eins vel og maður getur. Ég hef ekki spilað kant mjög lengi, ég spilaði síðast kant á Selfossi ef eitthvað er, en maður gerir það sem manni er sagt að gera. Sem betur fer getur maður spilað meira en eina stöðu."
„Mér finnst þetta mest pirrandi töpin, þegar við erum betri aðilinn og með "control" á leiknum en síðan einhvern veginn hrynur það og við missum það niður í tap. Þetta er extra súrt út af því, þetta var líka síðasti leikurinn minn á þessu ári og leiðinlegt að enda þetta með tapi."
Viðtalið má hlusta á í útvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir