Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
   þri 18. mars 2025 08:15
Elvar Geir Magnússon
Staðan á strákunum okkar - Margir mæta heitir til Spánar
Icelandair
Hákon mun verja mark Íslands í þessum glugga.
Hákon mun verja mark Íslands í þessum glugga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Júlíus Magnússon.
Júlíus Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Willumsson.
Willum Þór Willumsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið er komið til Spánar þar sem undirbúningur fyrir einvígið gegn Kósovó fer fram. Á morgun flýgur hópurinn í fyrri leikinn sem fram fer í Pristina, höfuðborg Kósovó, á fimmtudagskvöld.

Arnar Gunnlaugsson opinberaði í síðustu viku sinn fyrsta landsliðshóp og enn hefur engin breyting verið gerð á honum. Það eru margir leikmenn að mæta sjóðheitir í þetta landsliðsverkefni, þá helst kannski framarlega á vellinum.

Markmenn:

Hákon Rafn Valdimarsson - Brentford F.C. - 17 leikir
Þrátt fyrir að Hákon hafi spilað fáa leiki á tímabilinu þá staðfesti Arnar að hann myndi verða áfram aðalmarkvörður landsliðsins í þessum glugga. Hefur staðið sig vel í landsleikjum og er með tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni og þrjá bikarleiki á tímabilinu. Lék síðast alvöru keppnisleik í byrjun febrúar.

Elías Rafn Ólafsson - FC Midtjylland - 6 leikir
Aðalmarkvörður Midtjylland sem trónir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar. Veitir Hákoni svo sannarlega harða samkeppni um markvarðarstöðuna í landsliðinu.

Lúkas J. Blöndal Petersson - TSG Hoffenheim
Spilar fyrir varalið Hoffenheim og er klárlega markvörður númer þrjú í hópnum. Þessi 21 árs leikmaður á framtíðina fyrir sér án nokkurs vafa.

Útileikmenn:

Valgeir Lunddal Friðriksson - Fortuna Düsseldorf - 15 leikir
Varnarmaðurinn hávaxni hefur ekki spilað síðustu tvo leiki Düsseldorf vegna meiðsla og ekki vitað nákvæmlega hver staðan er á honum fyrir þetta verkefni. Valgeir getur spilað hvar sem er í vörninni og er byrjunarliðsmaður í þýsku B-deildinni þegar hann er heill.

Sverrir Ingi Ingason - Panathinaikos F.C. - 55 leikir, 3 mörk
Klárlega okkar fyrsti miðvörður á blaði. Lykilmaður í gríska stórliðinu Panathinaikos þar sem hann hefur spilað hverja einustu mínútu undanfarna mánuði. Algjör lykilmaður hjá íslenska landsliðinu einnig.

Aron Einar Gunnarsson - Al-Gharafa SC - 104 leikir, 5 mörk
Umdeilt val í hópnum enda hefur Aron Einar ekki spilað marga fótboltaleiki síðustu ár. Hann er nú hjá Al-Gharafa í Katar en er ekki skráður í leikmannahóp liðsins í katörsku deildinni en hefur spilað með liðinu í Meistaradeild Asíu. Hann sjálfur segist vera í góðu standi.

Guðlaugur Victor Pálsson - Plymouth Argyle F.C. - 47 leikir, 2 mörk
Plymouth hefur átt ansi vindasamt tímabil. Guðlaugur Victor hefur fengið sinn skerf af gagnrýni en einnig átt mjög öfluga leiki. Alls er hann með átján leiki í Championship-deildinni á tímabilinu, mest spilað sem miðvörður, en hefur ekki komið við sögu í síðustu tveimur leikjum.

Logi Tómasson - Strömsgodset - 7 leikir, 1 mark
Bakvörðurinn er eftirsóttur af stærstu liðum Noregs en vill sjálfur helst að næsta skref hans verði fyrir utan Noreg. Logi stimplaði sig rækilega inn hjá landsliðinu á árinu 2024 en hefur verið á undirbúningstímabili með liði sínu í Noregi.

Bjarki Steinn Bjarkason - Venezia FC - 4 leikir
Fjölhæfur leikmaður sem hefur verið notaður sem varamaður hjá Venezia en hann byrjaði tímabilið á meiðslalistanum. Bjarki hefur komið við sögu í níu leikjum í ítölsku A-deildinni á tímabilinu en er samt sem áður smá umdeilt val í hópinn.

Stefán Teitur Þórðarson - Preston North End F.C. - 25 leikir, 1 mark
Hefur komið sér í burðahlutverk á sínu fyrsta tímabili með Preston í Championship-deildinni. Þessi stóri og stæðilegi miðjumaður er búinn að spila 31 leik í hinni krefjandi Championship-deildinni og skorað tvö mörk. Skagamaðurinn vonast eftir að verða í lykilhutverki í landsliðinu undir stjórn Arnars.

Mikael Anderson - AGF - 31 leikur, 2 mörk
Lykilmaður hjá AGF og hefur fengið verðskuldað lof fyrir frammistöðu sína í dönsku úrvalsdeildinni. Hefur sýnt fjölhæfni sína og leikið vel sama hvaða stöðu þjálfari hans biður hann um að spila.

Júlíus Magnússon - IF Elfsborg - 5 leikir
Miðjumaðurinn varð einn dýrasti leikmaður í sögu Elfsborg í janúarmánuði. Margir búast við því að hann fái stærra hlutverk með landsliðinu með komu Arnars en hann og Davíð Snorri þekkja Júlíus út og inn.

Arnór Ingvi Traustason - IFK Norrköping - 63 leikir, 6 mörk
Verið með fyrirliðabandið hjá Norrköping í bikarleikjum síðustu vikna. Hefur átt frábæran landsliðsferil og verður væntanlega áfram í risastóru hlutverki í stjórnartíð Arnars.

Ísak Bergmann Jóhannesson - Fortuna Düsseldorf - 31 leikur, 4 mörk
Getur sinnt öllum hlutverkum á miðsvæðinu og leikið mjög vel fyrir Dusseldorf í þýsku B-deildinni. Er með níu mörk og sex stoðsendingar í deildinni. Gengi liðsins hefur þó verið brokkótt og það situr í áttunda sæti í ótrúlega jafnri deild.

Þórir Jóhann Helgason - U.S. Lecce - 16 leikir, 2 mörk
Hefur verið byrjunarliðsmaður hjá Lecce í ítölsku A-deildinni síðan nýtt ár gekk í garð og átti virkilega góðan leik gegn AC Milan nýlega. Lecce hefur tapað fjórum leikjum í röð og er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið. Þórir Jóhann fékk ekkert að spila með landsliðinu undir stjórn Age Hareide eftir að hafa fengið mikinn spiltíma undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.

Willum Þór Willumsson - Birmingham City F.C. - 15 leikir
Hefur átt flott fyrsta tímabil með Birmingham sem er búið að stinga af í ensku C-deildinni. Willum er kominn með fimm mörk og fimm stoðsendingar í deildinni og spennandi að fylgjast með honum klífa stigann með enska liðinu sem ætlar sér stóra hluti.

Kristian Nökkvi Hlynsson - Sparta Rotterdam - 2 leikir
Sóknarmiðjumaðurinn hæfileikaríki fékk skyndilega lítið að spila hjá Ajax og var lánaður til Spörtu í Rotterdam þar sem hann spilar hverja mínútu. Skoraði og lagði upp í 4-0 sigri gegn Willem II á dögunum.

Hákon Arnar Haraldsson - LOSC Lille - 19 leikir, 3 mörk
Hefur verið geggjaður með Lille í Meistaradeildinni og var maður leiksins gegn Dortmund. Átti fyrr á tímabilinu frábæran leik gegn Liverpool. Heldur áfram að taka skref upp á við á sínum ferli og hefur verið orðaður við ensk úrvalsdeildarlið. Hefur verið gerður að varafyrirliða íslenska landsliðsins og það segir sitt um hlutverkið sem Arnar ætlar honum.

Mikael Egill Ellertsson - Venezia FC -19 leikir, 1 mark
Þessi fjölhæfi leikmaður byrjar alla leiki með Venezia á Ítalíu. Liðið hefur gert fjögur jafntefli í röð og situr í fallsæti í ítölsku A-deildinni. Mikael var í lok janúar keyptur til Genoa á Ítalíu frá Venezia en hann klárar yfirstandandi tímabil með Feneyingum.

Jón Dagur Þorsteinsson - Hertha Berlín - 42 leikir, 6 mörk
Spilaði stundarfjórðung í síðasta leik Herthu en hefur verið í frystikistunni og var ónotaður varamaður í níu leikjum þar á undan. Hertha hefur átt erfitt tímabil í þýsku B-deildinni og situr í fjórtánda sæti. Jón Dagur hefur ávallt leikið vel í landsliðstreyjunni og sett ákveðinn tón í anda liðsins og Arnar gæti horft til þess þegar hann stillir upp liðinu.

Albert Guðmundsson - ACF Fiorentina - 37 leikir, 10 mörk
Albert er búinn að hrista af sér meiðsli og er svo sannarlega kominn á flug með Fiorentina. Hefur skorað í þremur leikjum í röð; gegn Napoli, Panathinaikos og Juventus og var í liði umferðarinnar á Ítalíu um síðustu helgi. Hann kemur funheitur inn í þennan landsliðsglugga.

Andri Lucas Guðjohnsen - K.A.A. Gent - 30 leikir, 8 mörk
Andri hefur skorað fjögur mörk í 26 leikjum í belgísku deildinni en síðasta markið hans kom fyrir rúmum mánuði síðan í jafntefli gegn Mechelen. Hann var ónotaður varamaður um liðna helgi. Þó hann hafi ekki náð sér almennilega á strik ennþá hjá Gent var Andri einn bjartasti punkturinn undir lok stjórnartíðar Age Hareide hjá landsliðinu þar sem samvinna hans og Orra Steins Óskarssonar var framúrskarandi.

Orri Steinn Óskarsson - Real Sociedad - 14 leikir, 5 mörk
Nýr fyrirliði Íslands, aðeins 21 árs, og verður fyrsti maður á blað hjá Arnari. Er með þrjú mörk í La Liga á tímabilinu og fjögur Evrópumörk á sínu fyrsta tímabili með Real Sociedad. Spænska liðið er nýkomið úr einvígi gegn Manchester United í Evrópudeildinni en það tapaðist.
Athugasemdir
banner