Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United og sparkspekingur á BT Sports, gagnrýndi Cristiano Ronaldo fyrir hegðun hans á hliðarlínunni í 2-1 tapinu gegn Young Boys í Meistaradeild Evrópu en Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, tekur upp hanskann fyrir portúgalska sóknarmanninn.
Ronaldo skoraði mark United í leiknum en var skipt af velli í síðari hálfleik. Hann og Bruno Fernandes voru að mótmæla slakri dómgæslu eftir að Christopher Martins braut á Nemanja Matic en hann var þá á gulu spjaldi.
Ferdinand sagði eftir leikinn að hann hefði sagt honum að setjast niður ef hann hefði verið Solskjær en Norðmaðurinn svaraði honum í dag.
„Rio, enn og aftur, tjáir sig um eitthvað sem hann hefur ekki hundsvit á. Christopher Martins átti að fá gult spjald þegar hann tók Nemanja Matic niður. Bæði Bruno Fernandes og Cristiano, eins ástríðufullir og þeir eru, voru allt í einu mættir hliðina á mér á hliðarlínunni."
„Þeir voru þarna í smástund og öskruðu á dómarann. Þetta gerðist eftir að nokkrar slæmar ákvarðanir voru ekki okkur í hag en svo fór Cristiano aftur á bekkinn og það gerði Bruno líka. Við vitum að aðeins einn maður má vera í boðvanginum. Það er ég, Carrick, Mick eða Kieran."
„Þetta var bara í hita leiksins og það hefði átt að reka reka Martins af velli, þannig ég sé ekkert að því að þeir sýni smá ástríðu og fari svo aftur á bekkinn. Það er ekki eins og Ronaldo hafi verið að segja leikmönnum til, það var alls ekki þannig," sagði Solskjær um málið.
Athugasemdir