Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
   lau 18. október 2025 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Güler: Við Mbappé pössum fullkomlega saman
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tyrkneski sóknartengiliðurinn Arda Güler er að njóta lífsins hjá Real Madrid. Hann hefur komið að 7 mörkum í 10 leikjum með Real á tímabilinu og svaraði ýmsum spurningum eftir heimkomu úr landsleikjahléi með Tyrklandi, þar sem hann skoraði eitt og lagði tvö upp í tveimur leikjum.

Hann talaði meðal annars um einstakt samband sitt við Kylian Mbappé á vellinum.

„Við Mbappé pössum fullkomlega saman, það er eins og við höfum verið búnir til fyrir hvorn annan. Við höfum fullkominn skilning innan vallar," sagði Güler við L'Équipe.

„Stundum spjöllum við saman fyrir leiki um hvað við ætlum að gera og stundum nægir bara eitt augnaráð til að við skiljum hvorn annan."

Güler er aðeins 20 ára gamall og þráir að vinna Meistaradeild Evrópu, en Real Madrid er langsigursælasta lið í sögu keppninnar. Hann var í hópnum sem vann Meistaradeildina 2023-24 en kom ekkert við sögu í keppninni.

„Mér líður ekki eins og ég hafi unnið Meistaradeildina 2024 útaf því að ég spilaði ekki. Við verðum að vinna keppnina aftur! Ég hef fulla trú á Xabi Alonso, hann getur leitt okkur til sigurs. Ef hann segir mér einn daginn að spila sem markvörður, þá fer ég beint út í búð að kaupa hanska!"
Athugasemdir
banner