Mörg stór félög hafa áhuga á Mainoo - Toney og Rodrygo á óskalista Tottenham - Martínez ekki lengur varafyrirliði Villa
banner
   fös 07. nóvember 2025 11:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lagði á sig átta tíma lestarferð til að fá treyju Ágústs Orra en fékk hana ekki
Mætti með skilti af Ágústi Orra.
Mætti með skilti af Ágústi Orra.
Mynd: Aðsend
Breiðablik mætti í gær Shakhtar Donetsk í Sambandsdeildinni. Spilað var í Kraká í Póllandi.

Szymon Binczyk var mættur á völlinn eftir átta tíma lestarferð. Hann er mikill fótboltaaðdáandi og treyjusafnari, hann var mættur til þess að sjá leikinn og fá treyju Ágústs Orra Þorsteinssonar eftir leikinn. Hann mætti með skilti af Ágústi Orra og á því stóð hvort hann gæti fengið treyju hans.

Lestu um leikinn: Shaktar Donetsk 2 -  0 Breiðablik

Szymon er stuðningsmaður Dortmund og heldur mikið upp á bandaríska Íslendinginn Cole Campbell. Cole var í stuttan tíma hjá Breiðabliki áður en hann fór til Dortmund. Szymon vissi að Ágúst hefði spilað með honum og sá tækifæri til að sjá Breiðablik með berum augum og ná í góða treyju þar sem Breiðablik væri að spila í Póllandi.

„Ég gaf blóð til að fá frí í vinnunni, tók með mér trefil sem amma gerði fyrir mig og tók átta tíma lest til Kraká. Á vellinum hitti ég marga Íslendinga, ótrúlega gott fólk," segir Szymon við Fótbolta.net.

Það fór þó ekki betur en svo að Szymon fékk ekki treyju Ágústs því Blikinn hafði skipti á treyju við leikmanna Shakhtar.

Ágúst dó ekki ráðalaus og græjaði treyju samherja síns, Gunnleifs Orra Gunnleifssonar, fyrir Szymon.

„Ég skil Ágúst, ef ég væri leikmaður myndi ég líka skipta á treyjum. En hann var svo hugulsamur að hann kom með treyju vinar síns. Með þessu bjó hann til nýjan Gunnleifsson stuðningsmann."
Athugasemdir