
„Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós. Ef það fer svo þá var þetta góður tímapunktur, á Wembley og ná að jafna vin minn Birki Kristinsson í leikjafjölda. Það verður bara að koma í ljós hvað gerist seinna," sagði Hannes Þór Halldórsson í viðtali við Stöð 2 Sport aðspurður hvort þetta hefði verið hans svanasöngur með landsliðinu.
„Það eru mikið af tilfinningum í þessu núna. Við erum að jafna okkur á því að hafa ekki komist á Evrópumótið og á þessu hörmulega tapi um daginn. Ég var að horfa á Evrópumótið en nú verðum við að sjá til hvernig hlutirnir þróast."
Hafa dagarnir og leikirnir eftir Ungverjaleikinn verið erfiðir?
„Þetta tók mjög á okkur þessi Ungverjaleikur og tók á að rífa okkur aftur í gang. Ég tala fyrir sjálfan mig en það er eins og maður hafi farið þetta á hnefunum eftir þann leik og tilfinningarnar eru að koma út núna," sagði Hannes sem barðist við tilfinningar sínar.
Hannes lék sinn 74. landsleik í kvöld sem var jöfnun á leikjafjölda Birkis Kristinssonar. Hannes lék seinni hálfleikinn í kvöld.
Athugasemdir