Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 19. febrúar 2020 22:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ef ég verð ekki rekinn þá verð ég hérna 100%"
Guardiola og De Bruyne.
Guardiola og De Bruyne.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola stýrði í kvöld Manchester City til 2-0 sigurs gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Eftir leik var sigurinn hins vegar ekki aðalmálið er fjölmiðlamenn fengu að tala við Guardiola, það var Evrópubannið sem Man City fékk dæmt á sig í síðustu viku.

Leikurinn í kvöld var sá fyrsti hjá Man City eftir að félagið fékk tveggja ára bann frá UEFA fyrir að brjóta reglur um fjárhagslega háttvísi. Félagið áfrýjar þeim dómi.

Guardiola hafði ekki tjáð sig opinberlega um bannið þangað til að hann ræddi við fjölmiðlamenn eftir leikinn gegn West Ham.

„Það eina sem við getum gert er að einbeita okkur að því sem við gerum á vellinum, það sem við höfum gert síðustu fjögur árin. Við ætlum að gera það út tímabilið. Ég treysti félaginu 100%," sagði Guardiola við Sky Sports.

„Við erum bjartsýnir á að sannleikurinn muni hafa betur á endanum og að við verðum í Meistaradeildinni."

„Ef ég verð ekki rekinn þá verð ég hérna 100%. Í fyrsta lagi af því að mig langar að vera hérna áfram. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að ég vil vera hérna og hjálpa liðinu eins lengi og mögulegt er. Sama hvað gerist þá verð ég hér á næsta tímabili," sagði Spánverjinn.

Komum bara til baka og spiluðum fótbolta
Kevin de Bruyne, miðjumaður Man City, fór einnig í viðtal eftir leik. Hann skoraði og lagði upp í þessum 2-0 sigri.

„Þetta var allt í lagi hjá okkur. Það sást að við vorum aðeins ryðgaðir eftir langt frí, en við spiluðum góðan leik," sagði De Bruyne.

Belginn fékk auðvitað spurningu um Evrópubannið. Við því sagði hann: „Við vorum í fríi þegar þetta gerðist. Við komum bara til baka og spiluðum fótbolta. Staðan er eins og hún er. Við komum og æfðum eins og venjulega. Fyrir okkur breyttist ekkert."

„Við erum enn að spila um tvo bikara og erum í Meistaradeildinni. Við verðum að finna taktinn eins fljótt og auðið er og reyna að vinna titla."
Athugasemdir
banner
banner
banner