Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 19. júlí 2024 21:37
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeild kvenna: Alda og Murielle afgreiddu Selfoss - 16 ára hetja HK
Alda og Murielle sáu um mörkin hjá Fram
Alda og Murielle sáu um mörkin hjá Fram
Mynd: Toggi Pop
HK vann
HK vann
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Alda Ólafsdóttir og Murielle Tiernan skoruðu mörkin er Fram vann Selfoss, 2-0, í Lengjudeild kvenna í kvöld. Hin 16 ára gamla Ísabel Rós Ragnarsdóttir var þá hetja HK sem lagði Grindavík að velli, 1-0, í Kórnum. Þá skildu Afturelding og Grótta jöfn, 1-1, í Mosfellsbæ.

Leikur Aftureldingar og Gróttu byrjaði vel. Saga Líf Sigurðardóttir átti sláarskot á 5. mínútu leiksins, en eftir það róaðist leikurinn töluvert.

Afturelding var með yfirhöndina næstu tuttugu mínúturnar en Grótta tók síðan við sér. Elaina Carmen La Macchia, markvörður Aftureldingar, varði frábært langskot og virtist örugg í öllum sínum aðgerðum.

Staðan markalaus í hálfleik en snemma í þeim síðari skoraði Ariela Lewis fyrir Mosfellinga og það gegn sínu gamla félagi. Hildur Karítas Gunnarsdóttir átti þessa laglegu sendingu inn fyrir á Arielu sem potaði boltanum framhjá markverði Gróttu.

Aðeins sex mínútum síðar svöruðu gestirnir. Rebekka Sif Brynjarsdóttir með fallegt skot fyrir utan teig og í netið. Elaina illa staðsett í skotinu.

Áhugaverð staða kom upp á 61. mínútu. Elaina meiddist og þurfti að fara af velli, en Afturelding var ekki með varamarkvörð og fór því Andrea Katrín Ólafsdóttir í markið. Andrea er systir Ólafs Íshólm Ólafssonar markvarðar Fram í Bestu deild karla.

Tíu mínútum fyrir leikslok fékk Hildur Björk Búadóttir, leikmaður Gróttu að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með vísað af velli.

Undir lok leiks fengu bæði lið dauðafæri til að skora. Hildur Karítas átti hörkuskot sem Margrét Rún Stefánsdóttir varði og hinum megin á vellinum varði Andrea frábærlega og bjargaði stiginu fyrir heimakonur.

Afturelding heldur öðru sætinu með 20 stig en nú er HK komið fyrir Gróttu og 3. sætið eftir 1-0 sigurinn á Grindavík í Kórnum.

Hin 16 ára gamla Ísabel Rós Ragnarsdóttir kom inn af bekknum hjá HK og skoraði sigurmarkið í síðari hálfleiknum.

HK er núna með 20 stig eins og Afturelding, en með slakari markatölu. Grótta er í 4. sæti með 18 stig og Grindavík í 8. sæti með 13 stig.

Framarar komu sér upp í 6. sæti með 2-0 sigri sínum á Selfossi á JÁVERK-vellinum.

Markamaskínurnar Murielle Tiernan og Alda Ólafsdóttir skoruðu mörk Fram á síðasta hálftímanum. Murielle kom Fram á bragðið á 67. mínútu og tryggði Alda sigurinn þrettán mínútum síðar.

Fram er núna með 15 stig en Selfoss er í 9. sæti deildarinnar með aðeins 9 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Afturelding 1 - 1 Grótta
1-0 Ariela Lewis ('52 )
1-1 Rebekka Sif Brynjarsdóttir ('58 )
Rautt spjald: Hildur Björk Búadóttir, Grótta ('80) Lestu um leikinn

Selfoss 0 - 2 Fram
0-1 Murielle Tiernan ('67 )
0-2 Alda Ólafsdóttir ('80 )

HK 1 - 0 Grindavík
1-0 Ísabel Rós Ragnarsdóttir ('80 )
Lengjudeild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    FHL 18 13 1 4 62 - 35 +27 40
2.    Fram 18 10 4 4 42 - 24 +18 34
3.    Grótta 18 10 4 4 28 - 23 +5 34
4.    HK 18 9 3 6 42 - 29 +13 30
5.    ÍA 18 8 2 8 27 - 31 -4 26
6.    ÍBV 18 8 1 9 29 - 32 -3 25
7.    Afturelding 18 6 4 8 24 - 30 -6 22
8.    Grindavík 18 6 3 9 24 - 26 -2 21
9.    Selfoss 18 3 6 9 18 - 29 -11 15
10.    ÍR 18 2 2 14 18 - 55 -37 8
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner