
Toppliðin í Noregi, Brann og Vålerenga, unnu bæði stórsigra í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Diljá Ýr Zomers og María Þórisdóttir byrjuðu báðar hjá Brann í 5-1 sigri á Kolbotn.
Þessi sigur kemur liðinu langleiðina að því að vinna deildina en liðið er með sjö stiga forystu þegar þrjár umferðir eru eftir.
Vålerenga, sem er í öðru sæti, vann öruggan 4-0 sigur á Stabæk, en Arna Eiríksdóttir byrjaði hjá Vålerenga á meðan Sædís Rún Heiðarsdóttir spilaði síðustu fimm mínútur leiksins.
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir lék allan leikinn með FCK sem vann sjötta leikinn í röð í dönsku B-deildinni.
FCK fór illa með Næstved, 6-2, á útivelli og er sem stendur á toppnum með 26 stig, einu stigi á undan ASA Aarhus.
Guðrún Hermannsdóttir kom inn af bekknum stundarfjórðungi fyrir leikslok er Esbjerg tapaði fyrir Aarhus, 7-1. Esbjerg er í botnsætinu með 3 stig.
Fanney Inga Birkisdóttir sat allan tímann á bekknum er Häcken rústaði Brommapojkarna, 6-0, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni. Fanney og stöllur hennar færast nær titlinum, en liðið er með fjögurra stiga forystu á toppnum þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni.
Alexandra Jóhannsdóttir byrjaði hjá Kristianstad sem tapaði fyrir Piteå, 2-0, á útivelli. Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom inn af bekknum í síðari hálfleik. Kristianstad er í 6. sæti með 37 stig og á ekki lengur möguleika á að ná í Evrópusæti.
Andrea Thorisson lék allan leikinn með Bollstanas í 2-1 sigri á Sunnana í sænsku B-deildinni. Bollstanas er í næst neðsta sæti með 18 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir