Ísland vann sögulegan 3-2 sigur á Þýskaland í undankeppni HM í Wiesbaden í kvöld.
Hér er einkunnagjöf Fótbolta.net úr leiknum.
Hér er einkunnagjöf Fótbolta.net úr leiknum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir 9
Var gríðarlega einbeitt. Greip nokkrar hættulegar fyrirgjafir og átti eina virkilega góða og mikilvæga vörslu.
Ingibjörg Sigurðardóttir 9
Gríðarlega sterk í loftinu og lét líkamlega sterka sóknarmenn Þýskalands finna fyrir sér. Steig varla feilspor frekar en aðrar í liðinu.
Glódís Perla Viggósdóttir 9
Vann allt í loftinu og hélt góðri einbeitingu í lokin þegar Þjóðverjar sóttu stíft.
Sif Atladóttir 9
Átti truflaða tæklingu og kom í veg fyrir að Svenja Huth kæmist ein gegn Guggu í stöðunni 1-0 fyrir Íslandi. Grýtti mörgum stórhættulegum boltum inná þýska teiginn og tók sér að auki góðan tíma í innköstin og vann þannig mikilvægan tíma fyrir Ísland. Kórónaði svo góða frammistöðu með því að bjarga á marklínu í lok leiks.
Rakel Hönnudóttir 9
Rakel sneri aftur í byrjunarlið Íslands og stóð sig frábærlega í stöðu hægri vængbakvarðar. Hljóp fleiri, fleiri kílómetra og var sterk í loftinu. Átti tvær eitraðar sendingar inn á teig, önnur þeirra endaði með íslensku marki.
Hallbera Guðný Gísladóttir 9
Hallbera djöflaðist allan leikinn og átti margar góðar sendingar utan af vinstri kantinum. Var klók í pressu og staðsetti sig vel varnarlega.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 9
Sú hljóp og hljóp. Vinnuþjarka-dugnaðarframmistaða hjá Gunnhildi Yrsu.
Sara Björk Gunnarsdóttir 9
Fyrirliðinn setti tóninn strax í byrjun og lét þær þýsku finna fyrir sér allan leikinn. Hætti aldrei og hafði óbilandi trú á verkefninu löngu áður en að leikurinn var flautaður á.
Dagný Brynjarsdóttir 10
Frábær frammistaða hjá Dagnýju sem er komin í sitt besta form. Sú er að uppskera eftir erfitt ár. Byrjar á að verða Bandaríkjameistari og fer svo fremst í flokki íslensku landsliðskvennanna í sögulegum sigri á Þýskalandi. Kom að öllum mörkum Íslands. Skoraði tvö og lagði upp það þriðja. Mögnuð.
Fanndís Friðriksdóttir 9
Fanndís hljóp úr sér lungun og pressaði virkilega vel á þýsku vörnina sem leit oft á tíðum ekki vel út gegn henni. Getur bæði verið vinnuþjarkurinn sem djöflast fyrir liðið sitt og einstaklingurinn sem lokar leikjum. Var í fyrrnefnda hlutverkinu í dag og leysti það stórkostlega.
Elín Metta Jensen 9
Mögnuð frammistaða hjá Elínu Mettu. Hún skoraði eftir stórkostlegan snúning sem blekkti alla í stúkunni og átti stoðsendingarnar í báðum mörkum Dagnýjar.
Varamenn:
Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('70)
Spilaði of stutt til að fá einkunn en kom inn af áræðni og krafti.
Anna Björk Kristjánsdóttir ('89)
Spilaði of stutt til að fá einkunn.
Þjálfari: Freyr Alexandersson 10
Freyr vissi nákvæmlega hvað þurfti að gera enda búinn að kortleggja Þjóðverja út í gegn. Hann hannaði ásamt þjálfarateyminu leikskipulag sem hentaði fullkomnlega í verkefnið. Ekki nóg með það heldur barði hann trú í leikmenn og fékk þær til að fylgja planinu hárnákvæmt eftir.
Athugasemdir