Zubimendi til Real frekar en Arsenal? - Bundesliga leikmenn á blaði Man Utd - Alvarez ekki til sölu
   fös 21. mars 2025 12:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hinrik Harðar: Þetta var eins og að labba inn í nýjan heim
Mættur í næst efstu deild Noregs.
Mættur í næst efstu deild Noregs.
Mynd: Odd
Skoraði sjö mörk og lagði upp fimm í Bestu deildinni í fyrra.
Skoraði sjö mörk og lagði upp fimm í Bestu deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Viktor og Hinrik náðu vel saman í fremstu línu.
Viktor og Hinrik náðu vel saman í fremstu línu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það hjálpaði mjög mikið að vera með svona stóra karaktera eins og Viktor og Arnór'
'Það hjálpaði mjög mikið að vera með svona stóra karaktera eins og Viktor og Arnór'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór og Dean Marti hjálpuðu Hinriki mikið.
Jón Þór og Dean Marti hjálpuðu Hinriki mikið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höddi Magg er pabbi Hinriks. - 'Ætli ég gefi honum það ekki'
Höddi Magg er pabbi Hinriks. - 'Ætli ég gefi honum það ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var funheitur í vetur, skoraði fjögur mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum.
Var funheitur í vetur, skoraði fjögur mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var kannski 'win-win' staða fyrir mig; færi mögulega út en hefði alveg verið sáttur áfram uppi á Skaga'
'Þetta var kannski 'win-win' staða fyrir mig; færi mögulega út en hefði alveg verið sáttur áfram uppi á Skaga'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mig langar að spila - og ég held að ég hafi ákveðna eiginleika sem aðrir hafa ekki til að spila - í topp deildunum.'
'Mig langar að spila - og ég held að ég hafi ákveðna eiginleika sem aðrir hafa ekki til að spila - í topp deildunum.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fyrir svona 2-3 vikum var ekkert í kortunum að ég myndi fara út fyrir tímabilið, en síðan breyttist þetta fljótt'
'Fyrir svona 2-3 vikum var ekkert í kortunum að ég myndi fara út fyrir tímabilið, en síðan breyttist þetta fljótt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hinrik Harðarson var á sunnudag kynntur sem nýr leikmaður norska félagsins Odd en hann var keyptur frá ÍA. Hinrik blómstraði með Þrótti í Lengjudeildinni 2023, var keyptur til ÍA og skoraði sjö mörk og lagði upp fimm á sínu fyrsta tímabili í efstu deild.

Hinrik er tvítugur sóknarmaður, verður 21 árs í sumar. Hann spilaði sem annar af tveimur framherjum hjá ÍA og náði vel saman með Viktori Jónssyni sem varð markakóngur Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.

Hinrik er þessa stundina staddur með U21 landsliðinu á Spáni og gæti í dag spilað sinn fyrsta leik fyrir U21 landsliðið. Hann á til þessa tvo leiki fyrir yngri landsliðin, báða með U20 fyrir ári síðan. Hinrik ræddi við Fótbolta.net í vikunni.

Frábært skref
„Það er frábær tilfinning að vera orðinn leikmaður Odd. Ég fór í læknisskoðun á sunnudaginn, fékk þá að skoða aðstæður og hvernig félagið vinnur hlutina. Maður fann bara strax að þetta er aðeins öðruvísi en á Íslandi varðandi fjölda starfsmanna, aðstæður og stærð. Maður fann strax að þetta er aðeins meiri fagmennska en er á Íslandi. Þetta er frábært skref fyrir mig að taka held ég," segir Hinrik.

Vonar að breytingin verði ekki stórkostleg
Hinrik hefur æft vel hjá Skaganum, en það er annað að vera algjör atvinnumaður.

„Það hjálpar mjög mikið að geta bara einbeitt sér að fótboltanum, það er það sem maður er búinn að vinna að síðan maður var lítill; að geta fengið það tækifæri að vera atvinnumaður í fótbolta. Umhverfið á Skaganum var samt þannig að maður var hálfgerður atvinnumaður, kom inn á morgnana, æfði með Dean (Martin) og svo var æfing seinni partinn. Vonandi verður þetta engin stórkostleg breyting, en auðvitað breyting að allir leikmenn liðsins eru atvinnumenn, það eru ekki sumir sem eru atvinnumenn og aðrir í 100% vinnu annars staðar."

Markmiðið að næsta skref yrði erlendis
Áttirðu von á því að atvinnumennskan myndi svona fljótt verða möguleiki?

„Þegar ég tók fund með ÍA var markmiðið að taka síðan skrefið út ef það myndi ganga upp. Við vorum svo sem ekkert vissir um hvenær það yrði, en við vorum samt vissir um að það myndi gerast á endanum. Ástæðan fyrir því er að ég vissi að ég fengi mikilvægt hlutverk hjá ÍA og traust frá þjálfurunum Jóni Þór og Dean Martin. Þá var í raun bara mitt að reyna skila til baka og mér hefur fundist ég hafa verið mikilvægur partur af liðinu. Það hefur ekkert komið á óvart, maður veit samt aldrei í fótbolta."

„Fyrir svona 2-3 vikum var ekkert í kortunum að ég myndi fara út fyrir tímabilið, en síðan breyttist þetta fljótt."


Báðar niðurstöður góðar
Odd hefur fylgst með Hinriki í talsverðan tíma og var fjallað um áhuga félagsins í síðasta mánuði. Hvað ert þú búinn að vera meðvitaður um möguleikann á að þú gætir farið út?

„Ég frétti líka af þessu einhvern tímann í síðasta mánuði að þeir hefðu áhuga, ætluðu að koma til Íslands og horfa á leiki á undirbúningstímabilinu. Ég pældi ekkert mikið í því, ræddi það við Jón Þór og fólkið upp á Skaga. Jón Þór sagði að það myndi ekkert breytast við þessa heimsókn, ég myndi bara spila minn leik. Ég held ég hafi náð að einbeita mér að því. Auðvitað var ég með þetta bakvið eyrað, en mér fannst þetta ekki há mér, þetta var kannski 'win-win' staða fyrir mig; færi mögulega út en hefði alveg verið sáttur áfram uppi á Skaga."

Úr fínna umhverfi í harðari stemningu
Hvernig var þetta ár hjá ÍA og samvinnan með Viktori?

„Þetta var eins og að labba inn í nýjan heim. Ég kom úr frábæru umhverfi í Laugardalnum, kannski aðeins fínna umhverfi. Að labba inn í Skagastemninguna, sem er ansi frábrugðin Þróttarastemningunni, gerði mér svakalega gott. Það sem maður lærði frá fyrsta degi er að það leggja allir svakalega hart að sér, sama þótt þeir séu ekki að spila eða eru utan hóps, það leggja allir jafnmikið á sig og eru allir saman í öllu, enginn gefst upp. Það tók auðvitað smá tíma að komast inn í það verkefni, varðandi tempó og form og annað. En smátt og smátt komst ég betur inn í þetta. Ég ræddi reglulega við Jón Þór og hann hafði engar áhyggjur af því að ég myndi ekki smella inn í þetta, það tæki bara smá tíma."

„Viktor hjálpaði mér líka. Það hjálpaði mjög mikið að vera með svona stóra karaktera eins og Viktor og Arnór Smárason sem var fyrirliðinn okkar í fyrra, það hjálpaði við að komast inn í hlutina. Þó að hlutirnir gengu kannski ekki upp einhvern tímann, þá mætti maður bara á æfingu og áfram gakk."

„Ég veit að Viktor er með ákveðna eiginleika sem ég hef ekki, og öfugt. Við náðum bara að tengja okkur mjög vel saman, bæði í uppspili og pressu. Ég held að samstarfið okkar hefði ekki getað farið betur."


Hinrik hvetur unga leikmenn að fara í umhverfið sem í boði er upp á Akranesi.

„Það er rosalega vel haldið um alla, sérstaklega unga leikmenn sem eru að koma úr bænum. Mönnum er látið líða eins og þeir séu einn af Skagamönnunum. Það er alveg klárt mál að Akranes er geggjaður staður fyrir unga og eldri leikmenn að vera á."

Skipti miklu máli að skilja í góðu
Hvernig var aðdragandinn að skiptunum þegar viðræður milli félaganna voru í gangi, tilboðum hafnað og ákveðin óvissa. Var þetta stress?

„Nei, í rauninni ekki. Ég skil það bara mjög vel að ÍA sé ekki að leyfa leikmönnum sem eru mikilvægur partur af liðinu að fara eitthvað á útsölu. Ég ræddi það við umboðsmanninn og fjölskyldunni að það skipti mig öllu að fara í góðu. Það skipti mig öllu máli að allir færu sáttir frá borði, líka þegar ég fór frá Þrótti á sínum tíma, skipti mig miklu máli að kveðja í góðu. Það var engin pressa frá mér, en frábært að fá það tækifæri að fá að ræða við Odd og síðan stökkva út á það tækifæri."

Getur hjálpað Odd að fara upp
Nú er búið að tikka í atvinnumannaboxið. Hvað viltu fá út úr þessu?

„Ég vil auðvitað byrja á því að koma mér inn í liði sem fyrst. Tímabilið í Noregi byrjar núna í lok mánaðar. Ég er rosalega spenntur að sjá hvar maður stendur miðað við atvinnumenn. Ég tel mig vera með þannig eiginleika að ég geti hjálpað Odd mjög mikið á þessu tímabili og hjálpað liðinu að komast upp um deild, í efstu deild þar sem liðið á heima. Ég leitast alltaf eftir því að spila á hæsta 'leveli' sem ég get."

„Við töluðum um það á sínum tíma að skrefið frá Þrótti mætti ekki vera of stórt, það mátti heldur ekki vera of lítið. Núna er sama upp á teningnum. Skrefið frá ÍA má ekki vera of stórt, en heldur ekki of lítið. Þetta er bara tröppugangur sem við erum að reyna taka."


Er alveg ljóst að Odd ætlar sér að fara beint upp?

„Odd var búið að vera 17 ár samfleytt í norsku úrvalsdeildinni og vill klárlega ekki vera í OBOS deildinni í meira en eitt ár. Fyrsta markmið er að komast beint upp. Ég átta mig samt á því að þessi deild er hörku-sterk og margir sterkir klúbbar í deildinni. Markmiðið er samt skýrt, að komast beint upp."

Hvernig eru möguleikarnir að komast inn í liðið hjá Odd?

„Ég held að möguleikarnir séu nokkuð góðir. Þeir eru með tvo hörkusterka framherja nú þegar, en ég held að ég hafi kannski eiginleika sem þeir hafa ekki. Auðvitað verður bara krefjandi að komast inn í liðið, það verður ekkert grín, maður labbar aldrei bara beint inn í liðið. Ég held að ég smátt og smátt muni komast betur inn í hlutina og fer vonandi að byrja leiki sem fyrst."

Langar að spila í topp deildunum
Stóra markmiðið á ferlinum, er einhver draumur sem þig langar að rætist?

„Mig langar að spila - og ég held að ég hafi ákveðna eiginleika sem aðrir hafa ekki til að spila - í topp deildunum. Ég leitast ekki voða mikið eftir því að klappa boltanum, er bara reyna þefa upp færi og stöður til þess að skora. Ég held að öll lið í öllum deildum séu að leita að slíkum leikmönnum. Auðvitað er markmiðið að reyna spila á sem hæsta getustigi og ég get, en ég er samt alveg raunsær."

Mikill heiður að fá kallið í landsliðið
Hinrik er sem stendur með U21 landsliðinu á Spáni. Framundan eru tveir vináttuleikir hjá nýjum árgangi í U21 landsliðinu.

„Það eru gríðarlegir hæfileikar í þessum hóp sem við erum með núna. Ég held að við getum gert ansi sterka hluti í undankeppninni sem er framundan, erum með reynslu í leikmönnunum og Óli (Ólafur Ingi Skúlason) er mjög fær þjálfari. Ég held að við munum klárlega gera sterka atlögu að því að komast upp úr þessum riðli sem við erum í. Við erum með marga leikmenn sem eru að spila á mjög háu stigi."

Hvernig er að vera hluti af þessu landsliðsumhverfi?

„Það er fyrst og fremst svakalega mikill heiður alltaf að fá að fara í þau verkefni. Ég er svo sem nýr í U21 hópnum, það er bara frábær tilfinning og vonandi fær maður að vera þar áfram eins lengi og hægt er. Það er í rauninni það sem maður er að spila fyrir."

Hinrik var valinn í nóvemberverkefnið en missti af leiknum gegn Póllandi vegna meiðsla.

„Það voru vonbrigði, þurfti að draga mig út vegna meiðsla. En það er bara áfram veginn, ekkert hægt að dvelja við það. Það er bara búið."

„Ég nota þetta á hann"
Faðir Hinriks er markavélin Hörður Magnússon sem raðaði inn mörkum á sínum tíma, mest fyrir FH. Fór hann eitthvað út í atvinnumennsku á sínum tíma?

„Pabbi fór á reynslu til Hollands á sínum tíma, en hann náði aldrei að fara út. Hann hefur nú sagt það að ef hann væri að spila á þessum tímum í dag þá hefði hann löngu verið farinn út. Ætli ég gefi honum það ekki."

Núna hefur þú þetta smá á hann, verandi kominn sjálfur út í atvinnumennsku.

„Og ég nota þetta á hann," sagði Hinrik á léttu nótunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner