Olise eftirsóttur - Sádi-Arabía til í að galopna veskið fyrir Van Dijk - Margir orðaðir við Man Utd
   þri 21. maí 2024 18:21
Brynjar Ingi Erluson
Pochettino látinn fara frá Chelsea (Staðfest)
Búið spil hjá Pochettino
Búið spil hjá Pochettino
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Argentínski stjórinn Mauricio Pochettino og enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem stjóri félagsins. Chelsea tilkynnti þetta í kvöld.

Pochettino gerði tveggja ára samning við Chelsea síðasta sumar eftir að hafa áður stýrt Paris Saint-Germain, Tottenham, Southampton og Espanyol.

Todd Boehly, eigandi Chelsea, hafði fyllt leikmannahópinn af nýjum leikmönnum og var Pochettino ætlað það hlutverk að móta hópinn en hann mætti alls konar hindrunum.

Margir leikmenn voru frá vegna meiðsla og þá voru nýir leikmenn að spila langt undir getu.

Pochettino kom Chelsea í úrslitaleik deildabikarsins en tapaði fyrir Liverpool á Wembley.

Þrátt fyrir slaka byrjun náði hann að klára tímabilið í 6. sæti og tryggja Evrópusæti fyrir næstu leiktíð en það dugði ekki til að halda starfinu.

Telegraph greinir frá því að Chelsea hafi náð samkomulagi við Pochettino um að hann láti af störfum. Félagið mun greina frá því í dag eða á morgun.

Pochettino hefur síðustu tvo daga fundað með stjórnarmönnum Chelsea þar sem hann samþykkti að láta af störfum.

Uppfært 18:22: Chelsea hefur staðfest fregnirnar á heimasíðu sinni.

Chelsea er að íhuga það að fá ungan stjóra til að taka við af Pochettino en þeir Sebastian Hoeness, Michel, Kieran McKenna og Enzo Maresca eru allir orðaðir við stöðuna.


Athugasemdir
banner
banner