Um helgina stendur fyrir dyrum kjör til stjórnar og formanns Knattspyrnusambands Íslands. Mesta athyglin er á formannskjörinu – og skyldi nú engan undra. Síðustu tveir formenn voru ekki beint reisulegir þegar þeir létu af embætti. En látum það vera. Tölum um knattspyrnu.
Fyrir örfáum mánuðum kom upp krísustaða innan knattspyrnusambandsins þar sem hver ásökunin á eftir annarri um ósæmilega hegðun leikmanna knattspyrnulandsliðs karla og þjálfara kvennalandsliðsins var á allra vörum.
Eftir að upp komst um framferði þeirra voru þeir settir til hliðar. Það er vel – en þrátt fyrir að vitneskja hafi verið um sum þessara atvika þá þurfti athygli fjölmiðla til að formaðurinn brygðist við. En við skulum tala um knattspyrnu.
Vanda Sigurgeirsdóttir, eftir hvatningu fjölmargra úr íþróttahreyfingunni, tók að sér að taka til og koma ró á þann ólgusjó sem KSÍ var komið í. Á undra skömmum tíma tókst henni og nýrri stjórn að koma böndum á bálið og friður virðist nú ríkja innan hreyfingarinnar. Að mestu.
Enn eru á ferðinni úrtölufólk sem telur sig kunna betur að deila og drottna en Vanda og á bak við tjöldin (í gamla daga var talað um reykfyllt bakherbergi) eru mættir einstaklingar sem nú vilja taka við. En við skulum tala um knattspyrnu.
Það er ekkert launungarmál að það að vera formaður í stjórn Knattspyrnusambands Íslands er ansi merkilegur biti. Þetta er þokkalega launað starf, enda er starfið rétt ríflega 100% - sá sem því gegnir hættir ekki að vera formaður kl. 16:00 á daginn og byrjar aftur kl. 08:00 morguninn eftir.
Formaðurinn mætir á alls konar fundi með góðu og skemmtilegu fólki alls staðar að af landinu og hvaðanæva af úr heiminum og þá er nú gott að kunna vel til verka. Þekkja innviðina, kunna langóið og geta talað um knattspyrnu. Já tölum um knattspyrnu.
Vanda Sigurgeirsdóttir kann knattspyrnu betur en margur annar. Hún er margreyndur knattspyrnumaður. Til áréttingar er rétt að rifja upp að hún lék með Tindastóli, KA, ÍA og Breiðabliki á árunum 1982-2008. Hún lék fyrir Íslands hönd á árunum 1985-1996 lengst af sem fyrirliðið.
Á þessum tíma var kvennalandsliðið ekki alltaf hátt skrifað innan stjórnar KSÍ og var lagt niður hluta tímans. Vanda er eina konan sem hefur þjálfar meistaraflokk karla á Íslandi. Hún þjálfaði gullaldarlið Breiðabliks 1994-1996, síðar KR, Tindastól og Þrótt. Þá var hún landsliðsþjálfari fyrst kvenna 1997-1999. En er ekki rétt að við tölum loks um knattspyrnu?
Það er von mín að knattspyrnuhreyfingin beri gæfu til þess að kjósa Vöndu áfram til góðra verka fyrir hreyfinguna í heild sinni. Við þurfum nefnilega að fara að tala um knattspyrnu!