Það var ljóst í gær að Arnar Gunnlaugsson yrði áfram þjálfari Víkings eftir að liðið hafnaði tilboði Norrköping.
Sakarias Mårdh yfirmaður fótboltamála hjá Norrköping sagði í kjölfarið að engar viðræður hafi staðið yfir. Kári Árnason yfirmaður fótboltamála hjá Víking ræddi málin í útvarpsþætti Fótbolta.net í dag.
„Þeir mega spila þetta eins og þeir vilja, það er engin ástæða fyrir okkur að ljúga að þessu. Ég gerði þeim full ljóst að við vildum aldrei selja Arnar, það var ekki ætlunin en við leyfðum honum að fara í viðræður og ef við myndum komast að sanngjörnu kaupverði þá væri hægt að gera þetta," sagði Kári.
Kári segir að um leikrti sé að ræða.
„Svo koma þeir ekki með almennilegt tilboð og það varð ekki neitt úr þessu. Þetta er eitthvað leikrit, það er nokkuð ljóst," sagði Kári.
Kári sagði að viðræðurnar hafi gengið allt of hægt.
„Ég get gert mér í hugarlund af hverju þeir eru að gera þetta en það er ekki mitt að svara fyrir það. Af hverju ættum við að vera ljúga þessu? Það er enginn tilgangur í því, ég sé engan vinkil sem myndi henta okkur. Þetta var orðið til trafala innan okkar herbúða og þess vegna var þessu slaufað," sagði Kári.
Kári telur að þetta sé góður gluggi fyrir Arnar enda spennandi tímabil framundan fyrir Víkinga.
„Við vorum tilbúin að leyfa honum að fara í einhverskonar viðræður en á endanum þurftum við að fá eitthvað fyrir okkar snúð. Hann vissi að en auðvitað heillar það hann að fara út og auðvitað verður hann skiljanlega eitthvað svekktur. Hann er það mikill fagmaður að hann heldur bara áfram, það er ekki eins og þetta sé eitthvað leiðinlegt verkefni, við erum með þvílíkt lið og ætlum okkur stóra hluti á næsta ári," sagði Kári.