
„Mér fannst geggjað að sjá hann á hliðarlínunni í gær. Hann leit virkilega vel út," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í lokin á Innkastinu í gær þegar rætt var um klæðaburð Arnars Gunnlaugsson, landsliðsþjálfara.
Klæðaburður Arnars í leiknum gegn Kosóvó í Murcia á Spáni hefur vakið skiptar skoðanir. Meðal annars sköpuðust umræður um hann í ummælakerfinu við frétt Fótbolta.net á samfélagsmiðlinum Facebook.
Klæðaburður Arnars í leiknum gegn Kosóvó í Murcia á Spáni hefur vakið skiptar skoðanir. Meðal annars sköpuðust umræður um hann í ummælakerfinu við frétt Fótbolta.net á samfélagsmiðlinum Facebook.
„Þetta er algjört hneyksli þessir garmar sem Arnar er í," skrifar einn og „Mér finnst hann bara flottur, nútíma klæðnaður," skrifar annar í ummælakerfinu.
Í Innkastinu var aðeins komið inn á þetta en Valur Gunnarsson var ekki sammála Guðmundi.
„Fannst þér geggjað að sjá hann í þessum rifnu gallabuxum? Ég hélt að það væru annað hvort jakkaföt eða joggingalli þegar þú ert þjálfari. Ég hélt að það væri enginn millivegur. Mér fannst eins og hann væri að fara á pöbbkviss hjá Steve Dagskrá eða eitthvað; í blazer og rifnum gallabuxum," sagði Valur léttur.
„Maður hefur allavega aldrei séð landsliðsþjálfara Íslands líta svona út," sagði Guðmundur.
„Ef við hefðum unnið 4-0, þá hefði ég hugsað 'djöfulsins töffari' en þegar við vorum í nauðvörn í stöðunni 0-0 þá var ég bara 'af hverju er hann í rifnum gallabuxum?'" sagði Valur.
„Þegar við byrjum að vinna, þá munum við elska þetta," sagði Guðmundur.
Arnar fer svo sannarlega sínar leiðir, hvort sem það er inn á vellinum eða í klæðaburði utan vallar.
Athugasemdir