sun 25. september 2022 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Vilja spila Meistaradeildarleiki utan Evrópu
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Nasser Al-Khelaifi, eigandi PSG og forseti Samtaka evrópskra íþróttafélaga, styður hugmyndir fótboltafélaga sem hafa áhuga á að spila Meistaradeildarleiki utan Evrópu.


Það yrði gert til að fá meiri peninga í kassann og auka áhuga og stuðning við evrópsk félagslið út um allan heim.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, talaði gegn þessum hugmyndum á þriðjudaginn í síðustu viku en Al-Khelaifi er ósammála.

„Það er ekki búið að samþykkja neitt. Við erum að skoða hugmyndir um hvernig sé best að stækka og þróa Meistaradeildina sem keppni, við erum í fullum rétti til að gera það," sagði Al-Khelaifi.

„Af hverju ekki að skoða alla möguleikana sem eru í boði?"

Edwin van der Sar, framkvæmdastjóri Ajax, situr einnig í stjórn Samtaka evrópskra íþróttafélaga og bendir hann á að uppástungur um að spila leiki utan landsteinanna séu ekki nýjar af nálinni. Ítalski Ofurbikarinn hefur til að mynda verið spilaður í Katar, Kína og Sádí-Arabíu á undanförnum árum.

Fyrsta skrefið í áætlun Samtaka evrópskra íþróttafélaga er að færa evrópska Ofurbikarinn yfir til Bandaríkjanna.

Stjórnendur úr helstu félögum evrópskrar knattspyrnu eru partur af samtökunum en Barcelona, Real Madrid og Juventus er búið að draga sig úr. Þau þrjú félög vilja enn setja evrópska Ofurdeild á laggirnar en Al-Khelaifi talaði gegn þeirri hugmynd.

„Við vitum að Ofurdeildin er ekki og mun aldrei vera til. Ef þeir vilja eltast við hana þá ætlum við ekki að skipta okkur af því."


Athugasemdir
banner