Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 25. október 2023 17:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Óli Kristjáns: Ekki margt sem gat togað mig í þjálfun aftur
Ólafur Kristjánsson er nýr þjálfari kvennaliðs Þróttar.
Ólafur Kristjánsson er nýr þjálfari kvennaliðs Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur fagnar marki.
Þróttur fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur starfaði síðast sem yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki.
Ólafur starfaði síðast sem yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aftur mættur í þjálfaraúlpuna.
Aftur mættur í þjálfaraúlpuna.
Mynd: Þróttur
„Þeir hringdu og spurðu hvort ég hefði áhuga á að hitta þá með það fyrir augum að ég tæki fyrir þjálfun hjá þeim. Ég gerði með þá eins og ég geri með alla aðra: Ég svaraði því kurteislega og sagðist tilbúinn að hitta þá. Svo þróaðist það bara," segir Ólafur Kristjánsson, nýráðinn þjálfari kvennaliðs Þróttar, í samtali við Fótbolta.net.

„Þeim tókst að kveikja í mér."

Ólafur var síðast hjá Breiðabliki sem yfirmaður fótboltamála en honum var sagt þar upp í sumar. Ólafur hefur á sínum þjálfaraferli stýrt Fram, Breiðabliki, Nordsjælland, Randers, Esbjerg og FH. Hann hefur aldrei áður þjálfað kvennalið.

„Ég er búinn að fylgjast mjög vel með kvennaboltanum síðustu tvö árin hérna heima og mér leist vel á Þróttaraliðið þar sem hér er gott lið með góða leikmenn sem eru vel þjálfaðir. Þegar ég heyrði metnaðinn í þeim, þá fannst mér þetta vera heillandi. Umgjörðin og aðstaðan sem Þróttur hefur upp á að bjóða er það líka."

„Ég hafði líka sagt við sjálfan mig að það væru nokkrir hlutir sem ég ætti eftir í þjálfun. Eitt af því er að þjálfa stelpur. Það kom fiðrildi í magann, að þetta gæti verið áhugavert," sagði Ólafur.

Mjög vel staðið að hlutunum
Ólafur segir að það hafi verið vel staðið að hlutunum hjá Þrótti síðustu ár og hann er spenntur fyrir því að koma inn í þetta umhverfi. Hann hefur fylgst vel með liðinu undanfarin ár.

„Það er mjög vel að þessu verkefni staðið hjá Þrótti. Ég hef fylgst með því sem hefur verið gert þarna kvennameginn í svolítið langan tíma. Það er virkilega vel að þessu staðið og þetta er áhugavert. Ég hlakka til að fara að þjálfa fótbolta aftur og það vill svo til að það eru stelpur sem spila."

„Ég var yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki og kvennaliðið er líka hluti af því, og Augnablik líka. Ég sá flesta leiki hjá þessum tveimur liðum og þar af leiðandi sá ég andstæðingana. Ég hef líka vel fylgst með í sjónvarpinu. Ég fór á marga leiki í kvennaboltanum síðastliðin tvö sumur. Mér finnst þetta vera lið og hópur með 'potential'. Það eru leikmenn sem eru eldri og góðir, og yngri og efnilegir. Þetta er skemmtileg blanda. Ég vil hrósa á þá sem hafa þjálfað liðið undanfarin ár þar sem bragurinn á liðinu hefur verið mjög góður."

Leikurinn er ekkert öðruvísi
Eins og áður segir er Ólafur í fyrsta sinn að fara að þjálfa í kvennaboltanum. Hann segist ekki þurfa að breyta sinni nálgun vegna þess.

„Ég er að fara að þjálfa fótbolta og leikurinn er ekkert öðruvísi. Það er örugglega einhverjir hlutir sem eru að einhverju leyti öðruvísi hjá körlum og konum hvað varðar einhverja þætti. En þú þarft að kenna vörn, þú þarft að kenna sókn, 'transition', þú þarft að þjálfa og setja upp æfingar. Ég held að stelpur vilji ekki láta þjálfa sig á einhvern annan hátt en strákar. Þetta er bara þjálfun og íþróttin heitir fótbolti," segir hann.

Ekki margt sem gat togað mig til baka
Ólafur hefur ekki þjálfað síðan hann stýrði Esbjerg í Danmörku árið 2021. Hann segir að það sé ekki margt sem hefði getað togað hann til baka í þjálfun.

„Það var ekki margt sem gat togað mig í að þjálfa aftur. Ég er búinn að þjálfa þrjú lið í Bestu deild karla ef Fram er talið með. Ég hef þjálfað erlendis. Ég hef ekki þjálfað út á landi og ekki þjálfað landslið - og ég segi með fyrirvara að það verði ekki túlkað sem bara A-landslið, getur verið yngri landslið líka - og ég hef ekki þjálfað stelpur. Það var eitthvað sem var á listanum hjá mér. Þegar möguleikinn kom upp á góðum stað með góðu fólki, þá var ég til."

Ólafur var orðaður við stöðu yfirmanns fótboltamála hjá HK áður en hann tók við þessu starfi.

„Ég segi ekki að það sé of langt mál að telja upp þá sem höfðu samband eða höfðu ekki samband, en ég var alveg í spjalli við aðila bæði hér og annars staðar um starf. Það kom upp erlendis líka, en ég var ekki alveg tilbúinn á þessum tímapunkti að fara aftur út," segir hann.

Mikill metnaður þarna
Þróttur hefur verið í mikilli uppbyggingu undanfarin ár en það hefur vantað að vinna titla, taka þetta einu skrefi lengra.

„Eru ekki allir - þegar komið er á þetta stig - með það að einhverju markmiði að vilja vinna leikina? Að vinna eitthvað? Að vinna titla er bara afleiðing af því sem maður gerir. Þróttur stóð sig vel í deildinni núna og hefur hellings 'potential'. Það er mikill metnaður þarna. Það er heilmikið sem þarf að gera. Þróttur þarf sem félag að halda áfram að þroskast og kannski get ég hjálpað eitthvað til við það," sagði þjálfarinn, sem stundum kallaður prófessorinn, að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner