Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   mið 25. október 2023 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Risastór yfirlýsing hjá Þrótti - „Ætluðum að svara því af fullum krafti"
Kristján og Ólafur.
Kristján og Ólafur.
Mynd: Þróttur
Óli Kristjáns hefur orðið Íslandsmeistari með karlalið Breiðabliks og svo hefur hann líka þjálfað í dönsku úrvalsdeildinni.
Óli Kristjáns hefur orðið Íslandsmeistari með karlalið Breiðabliks og svo hefur hann líka þjálfað í dönsku úrvalsdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nik hætti með Þrótt til að taka við Breiðabliki.
Nik hætti með Þrótt til að taka við Breiðabliki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli fer aftur í þjálfaraúlpuna.
Óli fer aftur í þjálfaraúlpuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur tilkynnti í gær að Ólafur Kristjánsson væri tekinn við kvennaliði félagsins. Hann tekur við starfinu af Nik Chamberlain sem var á dögunum ráðinn sem nýr þjálfari Breiðabliks.

Ólafur var síðast hjá Breiðabliki sem yfirmaður fótboltamála en honum var sagt þar upp í sumar.

Ólafur hefur á sínum þjálfaraferli stýrt Fram, Breiðabliki, Nordsjælland, Randers, Esbjerg og FH. Hann hefur aldrei áður þjálfað kvennalið.

„Við vorum ákveðin í því að við ætluðum að stíga stórt skref," segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í samtali við Fótbolta.net.

„Eftir að það varð ljóst að Nik væri að yfirgefa okkur, þá ætluðum við að svara því af fullum krafti. Við settum niður lista af fólki sem við hefðum áhuga að því að kæmi að meistaraflokki Þróttar. Svo þróaðist sá listi í samtölum. Óli var efstur á einhverjum tímapunkti. Þetta var ekkert flóknara en það."

„Þetta var kannski ekki fyrsta hugmyndin enda er þetta svolítið öðruvísi hugmynd. Hún þróaðist meira í ferlinu en að ég geti sagt að hann hafi verið fyrsta nafnið sem kom upp í hugann. Við byrjuðum á því að skoða hvaða þjálfarar væru mögulegir sem hafa reynslu af kvennaboltanum, hafa verið að þjálfa og svo framvegis. Svo þróast þetta áfram og við ákváðum að fara aðra leið, fórum að opna þetta þannig að við værum til í að taka inn þjálfara sem hefði ekki þjálfað stelpur áður. Við ákváðum að byrja á því að fara í hæsta klassa."

Verkefni sem er mjög spennandi
Þróttur hefur verið í mikilli þróun síðustu ár og hafnaði liðið í þriðja sæti Bestu deildarinnar á nýliðnu tímabili.

„Við stilltum þessu upp sem verkefni sem er spennandi fyrir alla sem hafa áhuga á að þjálfa fótbolta; að taka við góðu liði sem er á meðal þeirra bestu og reyna að bæta það enn frekar. Það er spennandi verkefni fyrir alla þjálfara. Óli hefur verið að fylgjast vel með kvennaboltanum, hann hefur oft verið á leikjum og hefur starfað sem álitsgjafi í kringum kvennaboltann í sjónvarpinu. Mér fannst það aldrei útilokað að hann eða einhver svipaður hefði áhuga á að þjálfa okkar lið. Af hverju ætti það að vera þannig? Þú getur náð árangri með þetta lið sem þú getur ekki náð með að fara í Lengjudeildina hjá körlum eða í neðri hluta Bestu deildarinnar."

„Ég var bjartsýnn strax þegar ég hringdi í hann. Ég hefði ekki hringt í hann ef ég hefði ekki talið þetta möguleika," segir Kristján og bætir við að fundirnir með Óla hafi gengið mjög vel.

„Það leið mjög skammur frá fyrsta símtali og þangað til við vorum búin að hittast í fyrsta sinn. Það segir söguna. Sá fundur gekk mjög vel. Við hittumst svo mjög fljótt aftur og það gekk líka mjög vel. Ferlið tók stuttan tíma og gekk snurðulaust fyrir sig, algjörlega."

Þetta er stór yfirlýsing
Að fá inn þjálfara sem hefur orðið Íslandsmeistari og þjálfað í dönsku úrvalsdeildinni er stórt fyrir Þróttara.

„Þetta er risastórt skref fyrir Þrótt. Þessi stjórn hefur verið saman í fjögur ár og það hafa orðið miklar breytingar, sem eru kannski ekki öllum sýnilegar. Það eru breytingar í rekstrinum, umgjörðinni og fleiru. Það er búið að vinna feykilega mikla vinnu í yngri flokkunum. Við erum á skipulegri leið og það gengur þokkalega. Við erum ekki mæla okkur við stærstu félögin en við erum að vinna góða vinnu. Ráðningin á Óla er hluti af þessari vegferð. Þetta er stór yfirlýsing, ég dreg ekkert úr því," segir Kristján og bætir við:

„Auðvitað er þetta stórt fjárhagslega, það þarf ekkert að fela það. Þekktir þjálfarar kosta meira, það er bara þannig. Við værum ekki að gera þetta ef við værum ekki með traust land undir fótum. Við höfum lagt mikla áherslu á að borga það sem við eigum að borga á réttum tíma. Við erum brött með þetta."

Það var óvænt
Kristján segir að það hafi verið óvænt þegar Nik tilkynnti félaginu að hann væri að hætta til að taka við Breiðabliki. Nik hafði þá starfað hjá Þrótti frá 2016.

„Það var óvænt. Við vorum byrjuð að undirbúa næsta tímabil með honum. Hann hafði ekki gefið til kynna að hann ætlaði að yfirgefa félagið. Það var fyrst og fremst óvænt. Hann var búinn að vera lengi og tók svo skyndilega ákvörðun, en þá bregður fólki og sérstaklega leikmönnunum. Hann var búinn að þjálfa margar af þessum stelpum á sjöunda ár, búinn að þjálfa þær stærstan hluta af ferlinum. En eins og ég sagði í upphafi, þá litum við á þetta tækifæri til að taka öflugt skref," segir formaðurinn.

Styttist mjög í það
Ian Jeffs hætti óvænt með karlalið Þróttar að loknu tímabilinu í haust eftir að liðið bjargaði sæti sínu í Lengjudeild karla. Hann tók svo í kjölfarið við Haukum. Karlaliðið er enn í þjálfaraleit en það kom fram á Fótbolti.net í gær að Sigurvin Ólafsson væri líklega að taka við liðinu. Kristján segir að það sé stutt í að það verði gengið á ráðningu fyrir karlaliðið.

„Það styttist mjög í það. Ég sé að sumir eru að lofa að ganga frá ráðningu á morgun en svo stendur það ekki, þannig að ég ætla ekki að segja neina nákvæma dagsetningu. En það er mjög stutt í það," sagði Kristján að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner