Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. júlí 2022 21:11
Brynjar Ingi Erluson
EM kvenna: Englendingar í úrslit í þriðja sinn eftir stórsigur á Svíum
Englendingar spila til úrslita á EM
Englendingar spila til úrslita á EM
Mynd: EPA
Hedvig Lindhal átti erfiðan dag í marki Svía
Hedvig Lindhal átti erfiðan dag í marki Svía
Mynd: EPA
England 4 - 0 Svíþjóð
1-0 Beth Mead ('34 )
2-0 Lucy Bronze ('48 )
3-0 Alessia Russo ('68 )
4-0 Fran Kirby ('76 )

England er komið í úrslitaleik Evrópumótsins í þriðja sinn í sögunni eftir 4-0 stórsigur á Svíþjóð í undanúrslitum keppninnar, en leikurinn fór fram á Bramall Lane, heimavelli Sheffield United, í kvöld.

Svíarnir settu mikla pressu á heimakonur í byrjun leiks og litu ágætlega út eða fram að fyrsta marki Englendinga.

Beth Mead gerði það eftir glæsilega sendingu Lucy Bronze inn í teiginn. Mead tók við boltanum og hamraði honum í netið. Staðan 1-0 í hálfleik.

Lucy Bronze tvöfaldaði forystuna á 48. mínútu. Mead launaði henni greiðann með því að koma með laglegri hornspyrnu á kollinn á Bronze sem skallaði boltann í netið. Það mátti setja spurningamerki við Hedvig Lindahl í markinu.

Varamaðurinn Alessia Russo gerði þriðja mark Englendinga með hælspyrnu á 68. mínútu. Hún fékk boltann fyrir framan markið og varði Lindahl vel frá henni áður en Russo hirti frákastið og tók hælspyrnu sem fór framhjá sænska markverðinum. Aftur átti Lindahl að gera betur.

Fran Kirby rak svo síðasta naglann í kistu Svía. Hún lyfti boltanum upp í loftið og Lindahl sló hann aftur fyrir sig og í netið. Erfiður dagur á skrifstofunni hjá Lindahl.

Lokatölur 4-0 fyrir Englandi sem mun spila til úrslita á EM í þriðja sinn en liðið hefur ekki enn tekist að vinna mótið frá því það tók fyrst þátt árið 1984. England mætir Frakklandi eða Þýskalandi í úrslitum.
Athugasemdir
banner