Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
banner
   fös 28. apríl 2023 17:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Formaður FH: Þetta er engum til sóma
watermark Valdimar Svavarsson, formaður knattpsyrnudeildar FH.
Valdimar Svavarsson, formaður knattpsyrnudeildar FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Frá frjálsíþróttavelli FH.
Frá frjálsíþróttavelli FH.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
watermark Kaplakrikavöllur.
Kaplakrikavöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark FH fagnar marki.
FH fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
watermark Úr leik FH og Stjörnunnar á dögunum.
Úr leik FH og Stjörnunnar á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
watermark FH spilar gegn KR á morgun.
FH spilar gegn KR á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Tvisvar hefur verið breytt um leikstað á leik FH og KR sem á að fara fram í Bestu deild karla á morgun. Eftir síðustu breytinguna þá á hann að fara fram á frjálsíþróttavelli FH-inga.

Það er sami völlur og leikur FH og Stjörnunnar fór fram á í annarri umferð en aðstæðurnar í þeim leik voru alls ekki boðlegar fyrir leik í efstu deild.

„Þetta er engum til sóma, en það er komin niðurstaða og það skiptir máli. Það er best að halda áfram og láta þetta ganga," segir Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, í samtali við Fótbolta.net.

Vonin var sú að Kaplakrikavöllur yrði klár í þennan leik en hann er það ekki. Vont veðurfar í þessari viku, snjókoma og frost, hefur haft slæm áhrif á völlinn og er hann því ekki tilbúinn.

„Það er rosalega erfitt þegar mótið er að spilast á þessum tíma og aðstæður eru mjög óvenjulegar. Það er búin að vera mjög vond tíð og erfitt við að eiga. Ég held að allir séu að reyna að leysa málin eins vel og hægt er, en þetta er samt svolítið klúðurslegt allt saman," segir Valdimar jafnframt.

„Við vorum vongóð um það að aðalvöllurinn okkar yrði í lagi fyrir þennan leik. Svo hefur tíðin verið slæm. Okkar vallarstarfsmenn áttuðu sig á því á miðvikudagsmorgun að þetta væri ekki að fara að gerast. Við vorum að sjá frost, snjó og allan fjandann í þessu. Þá var farið í það að finna út hvað við gætum gert til að leysa málin. Miðvöllurinn er heldur ekki ákjósanlegur en hann er þó í skárra standi en hinn."

Hann segir að það hefði verið best að fresta leiknum um nokkrar vikur en það var ekki samþykkt þó það hefði örugglega verið hægt að leysa það. Hvorugt þessara liða er í Evrópukeppni á þessu tímabili.

„Við fórum að skoða og gerðum það í samráði við KR, að reyna að fara fram á frestun og finna nýjan leikdag aðeins inn í sumarið. Við, KR, sjónvarpið og fleiri vorum á því að reyna að finna þá lausn. Við höfðum ekki þann möguleika að skipta á leik við KR vegna þess að þeir eru með grasvöll líka."

„Það náðist ekki samkomulag um það við mótstjórn. Það er kapítali út af fyrir sig að fara í, en við skulum ekki vera að dvelja við það," segir Valdimar en heyrst hefur að heitar samræður hafi verið á milli FH og KSÍ síðustu daga.

Lokuðu völlunum en þá færði KSÍ leikinn í Árbæ
Fyrr í dag var það tilkynnt að aðalstjórn FH hefði tekið ákvörðun um að loka grasvöllunum í Kaplakrika en leikurinn átti upphaflega að fara fram í kvöld. Þá tók KSÍ ákvörðun um að færa leikinn í Árbæ, á Würth-völlinn.

„Menn treystu sér ekki í þetta, vellirnir væru ekki í lagi. Menn töldu að það væri eðlilegast að fresta þessu og finna einhvern tíma í framtíðinni. En svo tekur mótastjórn þá ákvörðun að færa leikinn á annan völl þar sem okkar vellir væru ekki í frábæru standi að mati okkar sérfræðinga."

„Það er mjög afdrífaríkt að taka það frá félagi að fá heimavallarrétt, það vill enginn. Þá var ekkert annað að gera en að setja allt á fullt og koma þá Miðvellinum, sem er skárri, í eins gott form og hægt er fyrir leik sem er á morgun. Vonandi sleppur þetta allt saman á morgun."

„Það var afstaða vallarstjóra og aðalstjórnar að þetta væri ekki leikhæft sem slíkt. Þar af leiðandi var það gefið út að völlunum væri lokað. Svo þegar þetta snýst um að velja slæma kosti þá eru einhverjir betri en aðrir. Eftir að beiðni frá okkur í knattspyrnudeildinni kom um að þetta yrði endurskoðað svo við gætum haldið heimaleik þá var allt sett í gang og reynt að gera þetta eins vel úr garði og hægt er."

Það er langt sumar framundan - margir leikir - og Valdimar segir að það sé mikilvægt að vernda Kaplakrikavöll. Það sé ekki gott að spila á honum núna og taka áhættu þegar hann er ekki í góðu standi. Því verður spilað á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika en reynt verður að gera hann leikhæfan fyrir morgundaginn.

„Við verðum að horfa bjart fram á veginn og vonum að leikurinn verði eins góður og hægt er."

Óánægð með að leiknum sé ekki frestað
Það var ekki samþykkt að leiknum yrði frestað en KSÍ hefur ekki gefið útskýringu á þeirri afstöðu. FH-ingar eru auðvitað óánægðir með þessa niðurstöðu.

„Við erum auðvitað mjög óánægð með það að leiknum sé ekki frestað, það var okkar vilji og líka þeirra sem koma að leiknum. Þetta snýst um það hvernig við búum til góða umgjörð um fótbolta á Íslandi, aukum gæði boltans, aðkomu stuðningsmanna, höfum umgjörðina góða fyrir sjónvarp og annað," segir Valdimar.

„Auðvitað erum við ósátt við það að það hafi ekki verið tekið í það að reyna að leysa það mál. Við töldum að það væri hægt og við bentum á ákveðna möguleika í því. Það náði ekki fram og við erum klárlega mjög óánægð með það sem slíkt. Það kemur einhver gremja milli manna og við verðum að vinna að því í framhaldinu."

Hvenær verður Kaplakrikavöllur klár?
En stóra spurningin, hvenær verður Kaplakrikavöllur klár?

„Í mjög góðri trú höfðum við von um það um síðustu helgi að völlurinn yrði leikhæfur núna. Þetta eru mjög sérstakar aðstæður. Við erum með eina bestu sérfræðinga landsins en það hefur ekki dugað. Ef það kemur smá hita kafli þá er þetta fljótt að taka við sér. Við erum með yfirbreiðslur yfir vellinum og svoleiðis. Ég er enn bjartsýnn á það að við náum að koma vellinum í gang fyrir leik sem við eigum mánudaginn 8. maí gegn Keflavík," sagði Valdimar og bætti við:

„Það er vonandi að það takist, en við búum á Íslandi. Þetta eru aðstæður sem geta komið upp. Við verðum með hag fótboltans að leiðarljósi að reyna að gera þetta eins vel og hægt er."

Fótbolti.net hefur reynt að ná tali af Birki Sveinssyni, mótastjóra KSí, í gær og í dag en án árangurs.

Sjá einnig:
Útskýrir af hverju Stjarnan sagði nei við FH - „Mjög ófagmannlegt að þetta sé ekki klárt"
Athugasemdir
banner
banner
banner