Skoski þjálfarinn Duncan Ferguson verður ekki í þjálfarateymi Frank Lampard hjá Everton en enskir miðlar greina frá þessu.
Lampard er búinn að skrifa undir tveggja og hálfs árs samning hjá Everton og verður hann kynntur sem nýr stjóri félagsins í kvöld eða á morgun.
Rafael Benítez var rekinn frá Everton fyrr í þessum mánuði og tók Duncan Ferguson tímabundið við liðinu.
Ferguson verður ekki áfram í þjálfarateymi Everton og ætlar Lampard að stokka upp.
Lampard vill fá Paul Clement sér til aðstoðar og þá koma þeir Joe Edwards og Chris Jones einnig inn í þjálfarateymið.
Ferguson er goðsögn hjá Everton og spilaði þar í samtals tíu ár áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2006. Hann hefur í tvígang tekið við til bráðabirgða en síðast gerði hann það árið 2019 þegar Marco Silva var rekinn.
Athugasemdir