Það er óhætt að segja að þjálfarinn ungi, Will Still, sé að vekja mikla athygli í Frakklandi um þessar mundir.
Still er aðeins þrítugur að aldri. Hann er fæddur í Belgíu en á ættir að rekja til Englands.
Þegar hann var ungur spilaði hann tölvuleikinn Football Manager og fékk þá mikla ástríðu fyrir þjálfun. Hann hætti að spila fótbolta þegar hann var 17 ára og fór þá að þjálfa.
Hann byrjaði á því að vinna sem aðstoðarþjálfari U14 liðs Preston á Englandi og er núna búinn að vinna sig upp í það að vera aðalþjálfari Reims í frönsku úrvalsdeildinni.
Reims hefur núna ekki tapað deildarleik síðan í september en liðið gerði jafntefli gegn Paris Saint-Germain á útivelli í gær.
Still er einn yngsti þjálfarinn í Evrópu en hann er ekki enn búinn að sækja sér hæstu þjálfaragráðuna í bransanum, UEFA Pro License. Því má hann í raun ekki vera að þjálfa í frönsku úrvalsdeildinni en Reims hefur það mikla trú á honum að félagið borgar 25 þúsund evrur í sekt fyrir hvern leik sem hann stýrir. Hann er að sækja sér réttindin núna.
Þetta er mjög skemmtileg saga en það verður fróðlegt að sjá hversu langt þessi þjálfari mun fara. Hann hefur talað um það að sitt stærsta átrúnaðargoð sé Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri Manchester United.
Athugasemdir