Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 30. apríl 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 5. sæti
5. sæti: Grótta
Lengjudeildin
Gróttu er spáð fimmta sæti.
Gróttu er spáð fimmta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ágúst Gylfason stýrir Gróttu.
Ágúst Gylfason stýrir Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin Reynisson er leiðtogi Gróttu inn á miðsvæðinu.
Sigurvin Reynisson er leiðtogi Gróttu inn á miðsvæðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer Orri er spennandi leikmaður.
Kristófer Orri er spennandi leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Grótta, 160 stig
6. Vestri, 124 stig
7. Kórdrengir, 122 stig
8. Þór, 116 stig
9. Afturelding, 67 stig
10. Selfoss, 63 stig
11. Þróttur R, 55 stig
12. Víkingur Ó, 43 stig

5. Grótta
Gróttumenn eru komnir aftur í Lengjudeildina eftir stutt stopp í deild þeirra bestu. Liðið flaug upp úr 2. deild 2018 og upp úr Lengjudeildinni 2019. Uppgangurinn var mjög hraður. Það er metnaður hjá félaginu að komast aftur upp í deild þeirra bestu.

Þjálfarinn: Ágúst Gylfason er áfram við stjórnvölinn hjá Gróttu. Hann tók við liðinu í fyrra og stýrði því í Pepsi Max-deildinni. Ágúst endaði í 2. sæti með Breiðablik í tvö ár í röð áður en hann tók við Gróttu, auk þess sem Kópavogsliðið fór í bikarúrslit 2018. Áður en Águst tók við Blikum stýrði hann Fjölni í áraraðir við góðan orðstír.

Álit sérfræðings
Eiður Ben Eiríksson, Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Rafn Markús gefur sitt álit á liði Gróttu.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig Grótta kemur inn í deildina eftir að hafa átt frábært ár í deildinni 2019 en fallið í framhaldi úr Pepsi Max deildinni í fyrra. Þeir hafa misst nokkra sterka leikmenn og Gummi Steinars sem hefur verið hægri hönd Gústa í þjálfun síðan haustið 2016 er horfinn á braut. Styrkleiki liðsins er samt sem áður sá að þeir eru með enn með marga leikmenn sem hafa farið með liðinu milli deilda síðustu ár og er komin mikil reynsla í liðið frá því félagið var í 2. deildinni 2018. Leikmenn þekkja hvorn annan inn og út. Frábær uppgangur hefur hjá félaginu síðustu ár en því miður fengu stuðningsmenn Gróttu ekki að njóta þess að horfa á sína menn í efstu deild eins þeir hefðu viljað vegna Covid."



„Stemningin í Gróttu hefur verið mikil síðustu ár en spurning er hvernig fallið í fyrra fer í leikmenn, þjálfara, stuðningsmenn og stjórnarmenn. Það er klárt mál að einn af lykilþáttum í árangri Gróttu síðustu ár hafa verið föst leikatriði þar sem liðið hefur verið mjög öflugt. Þrátt fyrir að hafa misst nokkra sterka leikmenn þá þekkja þeir leikmenn sem eru til staðar hvorn annan inn og út. Gaman verður að sjá hvort sá fótbolti sem liðið bauð upp á í 1. deildinni 2019, þar sem liðið stjórnaði leikjum og spilaði sóknarbolta, verði til staðar eða hvort liðið komi með önnur spil upp í ermina í ár og haldi áfram að þróast áfram með Gústa Gylfa."

Lykilmenn: Pétur Theódór Árnason, Kristófer Orri Pétursson og Sigurvin Reynisson

Fylgist með: Björn Axel Guðjónsson
„Kom aftur í Gróttu í vetur eftir gott tímabil með KV í fyrra. Hann hefur verið að spila vel í undurbúningsleikjunum og er í hörku standi. Ef hann helst heill af meiðslum, þá getur Björn Axel komið mörgum á óvart í sumar."

Komnir:
Björn Axel Guðjónsson frá KV

Farnir:
Axel Freyr Harðarson til Víkings R.
Ástbjörn Þórðarson í KR (Var á láni)
Karl Friðleifur Gunnarsson í Breiðablik (Var á láni)
Kieran McGrath til East Kilbride í Skotlandi
Óskar Jónsson í Fram
Tobias Sommer Sørensen til Vejle í Danmörku (Var á láni)

Fyrstu leikir Gróttu:
7. maí gegn Þór á heimavelli
14. maí gegn Fjölni á útivelli
22. maí gegn Vestra á heimavelli
Athugasemdir
banner
banner