David á blaði hjá Man Utd, Liverpool og Arsenal - Liverpool undirbýr tilboð í Tchouameni - Man Utd reynir aftur við Branthwaite
banner
   mið 30. október 2024 21:51
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Man Utd skoraði fimm í fyrsta leik Ruud - Chelsea úr leik
Casemiro fagnar gegn Leicester
Casemiro fagnar gegn Leicester
Mynd: Getty Images
Ruud van Nistelrooy byrjar á sigri
Ruud van Nistelrooy byrjar á sigri
Mynd: Getty Images
Alexander Isak skoraði gegn Chelsea
Alexander Isak skoraði gegn Chelsea
Mynd: EPA
Hinn 17 ára gamli Ethan Nwaneri skoraði fyrir Arsenal
Hinn 17 ára gamli Ethan Nwaneri skoraði fyrir Arsenal
Mynd: Getty Images
Ruud van Nistelrooy, bráðabirgðastjóri Manchester United, gat ekki beðið um betri frumraun sem aðalþjálfari liðsins, en það vann þægilegan 5-2 sigur á Leicester á Old Trafford í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld. Chelsea er úr leik eftir 2-0 tap gegn Newcastle United.

Leikmenn United mættu vel stemmdir í verkefnið gegn Leicester, aðeins nokkrum dögum eftir að Erik ten Hag var látinn taka poka sinn.

Ekki er hægt að segja að margt hafi breyst þegar það kemur að leikstíl og öðru enda hreinlega ekki tími til að fara í einhverjar róttækar breytingar á nokkrum dögum.

Van Nistelrooy, sem var aðstoðarmaður Ten Hag, fær það verkefni að stýra United næstu daga og mögulega vikur, en hann var afar líflegur á hliðarlínunni í kvöld.

United byrjaði með stæl. Casemiro, sem hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir frammistöðu sína undanfarið, var manna glaðastur með þjálfaraskiptin og fagnaði þeim með tveimur mörkum í fyrri hálfleik.

Fyrra markið var stórbrotið. Hann lét þá vaða af löngu færi og hafnaði boltinn efst í hægra horninu, algerlega óverjandi fyrir Danny Ward.

Alejandro Garnacho skoraði annað markið eftir undirbúning Diogo Dalot áður en Bilal El Khannouss minnkaði muninn fyrir Leicester.

Þriðja mark United kom á 36. mínútu. Bruno Fernandes tók aukaspyrnu sem fór af varnarmanni og í netið. Ekkert sem Ward gat gert í þessu.

Casemiro gerði annað mark sitt þremur mínútum síðar. Hann átti fyrst skalla sem hafnaði í stöng áður en hann hirti frákastið og þrumaði boltanum í netið.

Conor Coady tókst að minnka forskot United niður í tvö mörk með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu. Sex mörk í fyrri hálfleik en síðari var aðeins rólegri.

Fernandes gerði út um leikinn á 59. mínútu með öðru marki sínu eftir skelfileg mistök í vörn Leicester. Caleb Okolo átti lélega sendingu til baka, sem var að þessari laglegu sendingu í gegn á Fernandes. Hann lék á Ward, labbaði að marki og setti boltann örugglega í netið.

Nokkuð þægilegt hjá United sem fer áfram í 8-liða úrslit.

Arsenal vann Stefán Teit Þórðarson og félaga í Preston þægilega, 3-0, á Deepdale-leikvanginum.

Gabriel Jesus skoraði fyrsta mark Arsenal á 24. mínútu og lagði síðan annað marki upp fyrir hinn unga og efnilega Ethan Nwaneri níu mínútum síðar.

Snemma í síðari hálfleiknum skoraði Kai Havertz þriðja mark Arsenal og þar við sat. Stefán Teitur lék allan leikinn í liði Preston sem er úr leik.

Newcastle United er komið áfram eftir að hafa unnið Chelsea, 2-0, á St. James' Park.

Alexander Isak skoraði eftir mistök Chelsea. Gestirnir reyndu að spila boltanum út úr vörninni en Sandro Tonali komst í sendinguna, kom boltanum á Isak sem lagði hann undir Filip Jörgensen í markinu.

Þremur mínútum síðar fékk Chelsea annað högg er Axel Disasi setti boltann klaufalega í eigið net eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Newcastle verður í pottinum er dregið verður í 8-liða úrslit eftir um það bil 45 mínútur.

Crystal Palace verður einnig í pottinum eftir að hafa unnið Aston Villa, 2-1, á Villa Park. Eberechi Eze skoraði á 8. mínútu fyrir Palace en kólumbíski sóknarmaðurinn Jhon Duran jafnaði stundarfjórðungi síðar.

Daichi Kamada gerði síðan sigurmarkið þegar hálftími var eftir og kom Palace áfram í 8-liða úrslit.

Aston Villa 1 - 2 Crystal Palace
0-1 Eberechi Eze ('8 )
1-1 Jhon Duran ('23 )
1-2 Daichi Kamada ('64 )

Manchester Utd 5 - 2 Leicester City
1-0 Casemiro ('15 )
2-0 Alejandro Garnacho ('28 )
2-1 Bilal El Khannouss ('33 )
3-1 Bruno Fernandes ('36 )
4-1 Casemiro ('39 )
4-2 Conor Coady ('45 )
5-2 Bruno Fernandes ('59 )

Newcastle 2 - 0 Chelsea
1-0 Alexander Isak ('23 )
2-0 Axel Disasi ('26 , sjálfsmark)

Preston NE 0 - 3 Arsenal
0-1 Gabriel Jesus ('24 )
0-2 Ethan Nwaneri ('33 )
0-3 Kai Havertz ('57 )
Athugasemdir