Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 31. júlí 2022 12:41
Brynjar Ingi Erluson
Chelsea undirbýr tilboð í De Jong
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er að undirbúa tilboð í hollenska miðjumanninn Frenkie de Jong, sem er á mála hjá Barcelona á Spáni en það er Sport sem greinir frá.

Manchester United náði samkomulagi við Barcelona fyrr í þessum mánuði um kaupverð á De Jong en leikmaðurinn var þó ekki tilbúinn að flytja til Manchester-borgar og þá flæktust málin þegar það kom upp úr kafinu að Barcelona skuldaði De Jong 17 milljónir evra í laun.

Leikmaðurinn var samt sem áður ekki reiðubúinn að ganga til liðs við Man Utd en spænskir miðlar fullyrtu þó að hann gæti samið við annað félag í glugganum.

Barcelona vill halda honum, en bara svo lengi sem hann samþykki að taka á sig helmings launalækkun svo félagið eigi möguleika á því að skrá nýja leikmenn í hópinn.

Framtíð hans er enn óljós. Xavi, þjálfari Börsunga og Joan Laporta, forseti félagsins, hafa hingað til sagt að De Jong verði áfram en það verður fróðlegt að sjá hvað De Jong gerir núna.

Sport segir frá því að Chelsea sé að undirbúa tilboð í De Jong á næstu dögum og þá kemur einnig fram að leikmaðurinn myndi hafa áhuga á því að búa í Lundúnum.

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála en það er alveg ljóst að það verður hörð barátta ensku liðanna um De Jong næstu vikur.
Athugasemdir
banner
banner