Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 31. ágúst 2022 22:24
Brynjar Ingi Erluson
Klopp: Hvenær dó þessi regla?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool á Englandi, var hæstánægður með 2-1 sigurinn á Newcastle United á Anfield í kvöld en liðið þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum.

Fabio Carvalho skoraði sigurmark Liverpool seint í uppbótartíma leiksins af stuttu færi í slá og inn.

Newcastle hafði verið að beita alls kyns aðferðum til að fara með stig af Anfield en þessar aðferðir til að tefja varð liðinu að falli í kvöld.

„Fótbolti getur farið í báðar áttir en í kvöld fór hann í rétta átt og þetta var í raun fullkominn endir á leiknum," sagði Klopp.

„Ég er mjög ánægður með að allir hafi séð þetta í kvöld. Það var erfitt að taka þessu. Þetta var mjög erfiður leikur hvort sem er og Newcastle eyddi miklum tíma í að loka á okkur. Þeir voru nálægt því að fá allt fyrir þessa vinnu, en auðvitað vilja allir sjá fótboltaleik og það hefur enginn gaman af því þegar það er komið í veg fyrir slíkt."

„Eini möguleikinn sem við eigum og ekki bara fyrir þennan leik heldur almennt er að dómarinn fari í vasann og taki upp gulu spjöldin. Ég veit ekki hvenær það hætti að vera gult spjald fyrir að sparka boltanum í burtu. Hvenær dó þessi regla?"

„Ég hafði enga hugmynd um hvort leikmennirnir hafi viljandi hent sér í grasið útaf smávægilegum meiðslum eða ekki. Ég bara veit það ekki,"
sagði Klopp.

Liverpool hefur verið að lenda mikið undir á þessu tímabili en hvernig er hægt að breyta því?

„Með því að skora fyrst. Það er nóg svigrúm fyrir bætingar, það er alveg klárt. Newcastle spilaði þetta vel verð ég að segja. Þetta er bara byrjun tímabilsins og maður þarf að berjast í gegnum þetta."

„Ég er ekki viss um að allir á vellinum hafi haldið áfram að trúa en núna verðum við að gera það. Þetta var alveg yndislegt mark frá þessum litla. Hann er að standa sig vel,"
sagði hann ennfremur.

Hann var sérstaklega ánægður með Harvey Elliott og Fabio Carvalho.

„Harvey Elliott var besti maðurinn á vellinum, það er enginn vafi á því. Ég er ánægður með að sjá að hann hefur tekið upp þráðinn frá því áður en hann meiddist illa. Fabio, þvílíkur strákur og þvílíkur leikmaður. Ég er nokkuð viss um að hann vilji upplifa þetta oftar og ég er viss um að ef hann heldur áfram að leggja sig fram þá mun hann gera það," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner