Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fim 01. ágúst 2019 17:00
Magnús Már Einarsson
Spáin fyrir enska - 16. sæti
Burnley
Leikmenn Burnley fagna marki.
Leikmenn Burnley fagna marki.
Mynd: Getty Images
Sean Dyche - Rauðhærði Mourinho.
Sean Dyche - Rauðhærði Mourinho.
Mynd: Getty Images
Ashley Barnes fagnar marki.
Ashley Barnes fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Getty Images
Það styttist í að enska úrvalsdeildin hefjist á nýjan leik. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 16. sætinu er Burnley.

Um liðið: Eftir að hafa náð sæti í Evrópudeildinni á þarsíðasta tímabili þá hægðist á fjörinu á síðasta tímabili og niðurstaðan varð 15. sæti, fjórum stigum frá falli. Burnley var lengi vel í basli en á endanum sigldi liðið þó nokkuð þægilega í höfn. Nú reynir á Sean Dyche og hans menn að reyna að forðast fallbaráttuna á komandi tímabili.

Staða á síðasta tímabili: 15. sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Stjórinn: Sean Dyche hefur gert hreint út sagt magnaða hluti með Burnley undanfarin tímabil og margir eru hissa á því að stærri félög hafi ekki bankað upp á hjá honum. Dyche er með einfaldan og árangursríkan leikstíl. Dyche hefur mikið dálæti á breskum leikmönnum en fáir leikmenn utan Bretlands hafa verið í leikmannahópi Burnley undanfarin ár.

Styrkleikar: Leikmannahópur Burnley er mjög samrýmdur en þar róa allir í sömu átt og leikmenn þekkja leikskipulagið inn og út. Litlar breytingar hafa orðið á hópnum og leik liðsins undanfarin ár og Dyche lætur sína menn spila upp á sína styrkleika. Turf Moor er leikvangur sem er erfitt að heimsækja þó að Dyche og hans menn hefðu viljað fá fleiri stig þar á síðasta tímabili.

Veikleikar: Vörnin hjá Burnley var ekki jafn þétt á síðasta tímabili og oft áður en liðið fékk 68 mörk á sig í 38 leikjum. Lítið hefur bæst við hópinn í sumar en Dyche hefur úr minna fjármagni að spila en margir aðrir kollegar hans í deildinni.

Talan: 4. Burnley var með fjóra reynda og öfluga markverði í sínum hóp á síðasta tímabili því Joe Hart, Tom Heaton, Nick Pope og Anders Lindegaard voru allir hjá félaginu. Lindegaard er núna farinn og Aston Villa hefur fengið Heaton í sínar raðir.

Lykilmaður: Ashley Barnes
Líkamlega sterkur framherji sem skoraði tólf mörk á síðasta tímabili og átti stóran þátt í að Burnley hélt sæti sínu á meðal þeirra bestu. Beinskeyttur leikstíll Burnley hentar Barnes vel en hann er öflugur inni á vítateignum. Barnes kom frá Brighton árið 2014 en þessi 29 ára gamli leikmaður hefur vaxið með hverju tímabili síðan þá og er leikjahæsti og markahæsti leikmaður Burnley í sögu úrvalsdeildarinnar.

Fylgstu með: Dwight McNeil
McNeil hóf ferilinn í unglingastarfinu hjá Manchester United en árið 2014 gekk hann í raðir Burnley. Þessi 19 ára gamli leikmaður stimplaði sig hressilega inn í lið Burnley á síðasta tímabili og skoraði mikilvæg mörk. Skemmtilegur kantmaður sem gæti átt eftir að ná mjög langt í framtíðinni.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Það verður vissulega fróðlegt að sjá hvort rauðbirkni Mourinho uppfæri leikstíl Burnley-liðsins eitthvað en það sem skiptir okkur máli er auðvitað Jóhann Berg Guðmundsson. Þrátt fyrir að byrja „aðeins“ 19 leiki í fyrra (kom við sögu í 29) vegna meiðsla kom hann samt með beinum hætti að níu mörkum, einu færra en tímabilið þar áður þegar hann byrjaði 32 leiki af 38. Okkar maður er Burnley gríðarlega mikilvægur en það verður að segjast að liðið er líklegra til að vera aftur í neðri hlutanum heldur en að eiga aftur einhvern Evrópudraum.“

Undirbúningstímabilið:
Burnley 1 - 0 Fulham
Port Vale 1 - 3 Burnley
Crewe Alexandra 1 - 0 Burnley
Fleetwood Town 0 - 2 Burnley
Wigan Athletic 2 - 2 Burnley
Burnley 6 - 1 Nice
Burnley 2 - 0 Parma

Komnir:
Erik Pieters frá Stoke - 1,5 milljónir punda
Jay Rodriguez frá WBA - 10 milljónir punda
Joel Senior frá Curzon Ashton - Kaupverð ekki gefið upp

Farnir:
Anders Lindegaard - Samningslaus
Stephen Ward til Stoke - Frítt
Jon Walters - Hættur
Peter Crouch - Hættur
Tom Heaton til Aston Villa - 9 milljonir punda

Þrír fyrstu leikir: Southampton (H), Arsenal (Ú), Wolves (H)

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. Burnley, 39 stig
17. Newcastle, 33 stig
18. Brighton, 23 stig
19. Norwich, 19 stig
20. Sheffield United, 13 stig

Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner