,,Óli þjálfari sagði í viðtali eftir leikinn mjög yfirvegaður: „Ég er brjálaður, alveg brjálaður“, en hann var ekki eins yfirvegaður þegar hann kom inn í klefa eftir leikinn. Það eina sem ég man var að rafmagnið var tekið af og mönnum hent í kalda sturtu."
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Fylkismönnum en Kristján Valdimarsson ritaði nokkur orð um tímabilið hjá þeim.
Undirbúningur fyrir sumarið endaði á æfingaferð á Spáni þar sem leikmenn æfðu að kappi og Ólafur Þórðarson þjálfari liðsins tapaði karlmennsku sinni með grænmetisáti. Fótboltavertíðin hjá Fylkismönnum var nokkuð óhefðbundin í sumar. Við byrjuðum á því að spila fyrsta leik sumarsins inni í Kórnum á gervigrasi og tókst okkur að tapa leiknum eftir að hafa spilað fyrri hálfleikinn Barca vel en síðari eins og kórdrengir. Óli þjálfari sagði í viðtali eftir leikinn mjög yfirvegaður: „Ég er brjálaður, alveg brjálaður“, en hann var ekki eins yfirvegaður þegar hann kom inn í klefa eftir leikinn. Það eina sem ég man var að rafmagnið var tekið af og mönnum hent í kalda sturtu. Ég man svo bara eftir lykilorðum úr ræðu sem Óli hélt ekki svo yfirvegaður sem áttu eftir að koma meira við sögu síðar: berjast, blóð á tennurnar, járna sig upp og þið eruð bara helvítis kæglar.
Þessi ræða virkaði greinilega vel því okkur gekk nokkuð vel fram að U-21 landsliðsfríinu og vorum til alls líklegir. Hins vegar gerðist eitthvað í þessu fríi sem varð til þess að við náðum ekki að fylgja eftir góðu gengi liðsins. Hvort því er um að kenna að menn skildu ekki orðið kægill eða ferðir leikmanna erlendis (Ingi(Mundur) í óskilum og Valur kannar erlenda viðskiptamöguleika) er ekki gott að segja, en eitt er víst að við náðum ekki að hífa okkur upp eins og Óli gerir svo fagmannlega á kranabílnum í vinnunni.
Þrátt fyrir að hafa drukkið mikið blóð, nagað járn og barist sigldum við um miðja töflu í allt sumar. Við náðum að selja leikmenn til að kaupa göngugrind handa Gylfa, sixpakk handa Óla, sumarbústaðferð handa óskilamunda og þá náði Baldur Bett að stofna veðmálafyrirtæki Bett ehf. fyrir restina af peningunum sem við fengum fyrir Adda. Þrátt fyrir að Addi hafi ekki náð að Adda neinum vinum á Facebook náði Börkur að tækla menn án þess að fá rautt.
Við náðum að standa okkur þokkalega í sumar þrátt fyrir meiðsli og brottför leikmanna. Ungir leikmenn fengu mikla reynslu í sumar bæði sem vallarverðir fyrri hluta sumarsins og sem leikmenn á miðjunni í lokinn. Skemmtilegt og lærdómsríkt sumar að baki og kveðjum við Óla með járnvilja í hjarta, með blóð á tönnum, baráttuanda í brjósti og þá staðreynd að það er hægt að klobba leikmenn/þjálfara sem eru undir 150cm. Við Fylkismenn munum aldrei gleyma því að við erum kjöt og blóð eins og aðrir þrátt fyrir að þjálfarinn hafi borðað grænmeti allt sumarið.
Sjá einnig:
Magnús Þórir Matthíasson (Keflavík) - Við ákváðum að prófa fallbaráttuna
Tómas Leifsson (Fram) - Með leikmann sem er með sveinspróf í fallbaráttu
Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík) - Mjög erfitt að skilja þessa Skota
Sveinn Elías Jónsson (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014