Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 11. október 2011 09:30
Magnús Þórir Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Við ákváðum að prófa fallbaráttuna
Magnús Þórir Matthíasson
Magnús Þórir Matthíasson
,,Hilli er þvílíkur gullmoli sem við fengum á silfurfati einn góðan veðurdag frá Hafnarfirði. Skil ekki hvernig Magga Gylfa tókst ekki að finna pláss fyrir hann í Haukunum..
,,Hilli er þvílíkur gullmoli sem við fengum á silfurfati einn góðan veðurdag frá Hafnarfirði. Skil ekki hvernig Magga Gylfa tókst ekki að finna pláss fyrir hann í Haukunum.."
Mynd: .
,,Ég verð í lokin að minnast á framgöngu Gunnars Jarls í sumar. Hann byrjaði sumarið ansi brösulega og fékk mikla gagnrýni fyrir sína frammistöðu og einna helst frá þáverandi þjálfara okkar sem sendi hann í æfingabúðir. Honum fannst halla á okkur á móti KR í 2.umferð. Ótrúlegt að sjá hversu miklar framfarir Gunnar sýndi eftir æfingabúðirnar og stóð hann sig frábærlega seinni part sumars. Gæða dómari þar á ferð!
,,Ég verð í lokin að minnast á framgöngu Gunnars Jarls í sumar. Hann byrjaði sumarið ansi brösulega og fékk mikla gagnrýni fyrir sína frammistöðu og einna helst frá þáverandi þjálfara okkar sem sendi hann í æfingabúðir. Honum fannst halla á okkur á móti KR í 2.umferð. Ótrúlegt að sjá hversu miklar framfarir Gunnar sýndi eftir æfingabúðirnar og stóð hann sig frábærlega seinni part sumars. Gæða dómari þar á ferð!
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Keflvíkingum en þar reif Magnús Þórir Matthíasson upp pennann.



Núna þegar þessi pistill er ritaður eru nákvæmlega 11 mánuðir og 2 vikur síðan undirbúningstímabilið hófst hjá okkur Keflvíkingum. Jú, við hófum æfingar 24. október 2010 fyrir þetta tímabil sem var að klárast. Við byrjuðum bara rólega, 3-4 æfingar í viku og leikur fyrir hádegi hvern einasta laugardag fram að jólum. Mínútunum var dreift jafnt og þétt á alla fyrir utan kannski Guðmund „Frímann“ Steinarsson sem hélt Gumma-Punkt víðs vegar um landið. Popp-Punktur er mini útgáfan af Gumma-Punkt. Fyrir áhugasama eru örfáar helgar lausar þetta haustið en hann er á fullu að taka við bókunum í síma: 659-5761.

Við fengum til liðs við okkur Hilmar Geir frá Haukum, Grétar Hjartarson frá Grindavík, Ísak Örn Þórðarson, Kristinn Björnsson og Frans Elvarsson frá Njarðvík og Adam Larsson frá Mjallby. Hilli er þvílíkur gullmoli sem við fengum á silfurfati einn góðan veðurdag frá Hafnarfirði. Skil ekki hvernig Magga Gylfa tókst ekki að finna pláss fyrir hann í Haukunum.. Grelli gamli var í basli með lærið sitt, ekki í fyrsta skipti, og náði sér aldrei almennilega á strik. Honum tókst samt að skora eitt fallegasta mark sumarsins þegar hann jafnaði á móti FH á Nettóvellinum. Við lánuðum Njarðvíkingana hingað og þangað fyrri hluta móts en fengum Sakka og Fransa til baka fyrir seinni hlutann og þeir reyndust okkur mjög vel. Sakki skoraði mjög mikilvægt sigurmark á móti Val í lokaumferðunum. Fransi spilaði síðustu leikina og hann spilaði virkilega vel á miðsvæðinu. Adam Larsson stóð sig mjög vel í sumar. Frábær karakter og yndislegur drengur þar á ferð.

Eftir áramót hófust æfingar aftur á fullu og við tókum þátt í Fótbolta.net-mótinu. Það má segja að það hafi verið hápunktur tímabilsins þegar Haraldur Noregskonungur lyfti Fótbolta.net-bikarnum á loft. Jú, við unnum fyrsta Fótbolti.net-mótið!! Við tókum ágætis dýfu eftir það mót, okkur gekk illa í Lengjubikarnum. Við leikmennirnir funduðum í klefanum og ákváðum að safna fyrir nýjum leikmanni. Sá sem varð fyrir valinu var Goran Jovanovski. Hann spilaði alveg á pari og gott betur en það miðað við hvað safnaðist. Við fórum í æfingarferð til Ólafsvíkur og þjappaði sú ferð hópnum heldur betur saman. Það viðraði ekki vel á leiðinni vestur en það er nú ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að topplúgan var að fjúka af og eitthver þurfti að hanga í henni frá Vegamótum og á Ólafsvík og það var einróma ákvörðun hópsins að tveir þyngstu menn liðsins færu í pappír-skæri-steinn upp á hvor þyrfti að hanga og það fór svo að lokum að Onkelinn þurfti að hanga í henni eftir 3-2 tap á móti Frímanni. Annars var ekkert að frétta á Ólafsvík nema hvað að ölduhæðin var nálægt 11 metrum og fiskisúpan eftir leik var eitt það besta sem ég hef borðað. Kærar þakkir fyrir hana Ólsarar.

Íslandsmótið hófst svo að lokum eftir mjög langt undirbúningstímabil og byrjuðum við mjög vel, 8 punktar eftir 4 leiki. Það fór að halla verulega undan fæti eftir það og töpuðum við 5 leikjum í röð. Eitthversstaðar í miðri taphrynu lenti mér og Einari Orra saman á æfingu sem var ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að Big W lét okkur hlaupa 4 hringi í kringum völlinn og í leiðinni áttum við að leiðast. Mögulega eitt það vandræðalegasta sem ég hef lent í frá því ég byrjaði að æfa fótbolta. Sumarið var upp og niður það sem eftir lifði móts.

Það var svo ekki fyrr en í lok ágúst að við vissum ekki hvað við vildum gera á þriðja og síðasta þriðjungi Íslandsmótsins. Keflavík var á krossgötum. Eigum við að styrkja liðið og reyna keyra upp um miðja deild eða eigum við að prófa að demba okkur fallbaráttuna í fyrsta skipti síðan 2002? Við ákváðum að prófa fallbaráttuna og handahófskennt var ákveðið að losa um þrjá menn.

Við seldum Goran og Halla Gumm. Goran fór til Skopje í sínu heimalandi, Makedóníu, sem voru í bullandi fallbaráttu og vantaði léttleikandi bakvörð. Halli fór til Start í Noregi og er þar að berjast við falldrauginn og mun halda áfram eitthvað út nóvember. Haukur Ingi hóf æfingar á fullu með okkur í byrjun ágúst og var kominn í mjög gott form þegar við sáum að útlitið var orðið mjög dökkt hjá vinum okkar í Grindavík. Okkur fannst ömurlegt horfa upp á það svo við brugðum á það ráð að lána Grindvíkingunum Hauk Inga í von um að þeir myndu bjarga sér. Og viti menn, Goran Jovanovski lokaði vörninni hjá Skopje og þeir héldu sér uppi í Makedóníu. Haukur Ingi kom inn í Grindarvíkurliðið einsog stormsveipur bæði fótboltalega og andlega. Þeir héldu sér uppi með mögnuðum sigri í Eyjum í lokaumferðinni. Til lukku Grindavík! Það eina sem á eftir að gerast er að Start haldi sér uppi þá getum við verið mjög ánægðir með þessa losun. Allt er þegar þrennt er!

Það má með sanni segja að þetta ár hafi verið lærdómsríkt fyrir Keflavík. Við tryggðum sæti okkar í deildinni með sigri á Þórsurum í lokaumferðinni og því miður fyrir þá var þeirra hlutskipti þetta árið að fara niður um deild. Liðsheildin fleytti okkur mjög langt í sumar. Willum tókst að gera gríðarlega öfluga liðsheild úr okkar hóp. Við vorum nánast inní hverjum einasta leik en tókst oft á tíðum að skíta á síðustu mínútunum. Það reyndist okkur dýrkeypt en slapp þó fyrir horn.

Mikið af ungum strákum spiluðu í sumar og fengu dýrmæta reynslu. Arnór Ingvi og Viktor Smári spiluðu megnið af leikjunum og stóðu sig mjög vel. Bojan Stefán, Magnús Þór, Ásgrímur og Sigurbergur spiluðu vel á þeim vöktum sem þeir fengu. Þessir strákar eiga eflaust eftir að mæta dýrvitlausir til leiks þegar undirbúningstímabilið hefst á ný og vilja fá að sýna hvað í þeim býr næsta sumar í deild þeirra bestu.

Ég verð í lokin að minnast á framgöngu Gunnars Jarls í sumar. Hann byrjaði sumarið ansi brösulega og fékk mikla gagnrýni fyrir sína frammistöðu og einna helst frá þáverandi þjálfara okkar sem sendi hann í æfingabúðir. Honum fannst halla á okkur á móti KR í 2.umferð. Ótrúlegt að sjá hversu miklar framfarir Gunnar sýndi eftir æfingabúðirnar og stóð hann sig frábærlega seinni part sumars. Gæða dómari þar á ferð!

Til hamingju KR-ingar með Íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn.
Að lokum vill ég þakka öllum þeim sem koma að knattspyrnunni í Keflavík fyrir sumarið sem og þeim stuðningsmönnum sem stóðu með okkur í gegnum þær hæðir og lægðir sem liðið fór í gegnum. Einstakt fólk!

Ég vill einnig þakka þér, lesandi góður, fyrir að lesa þessa langloku mína.

Grjótið úr Garðinum,
Magnús Þórir Matthíasson

Sjá einnig:
Tómas Leifsson (Fram) - Með leikmann sem er með sveinspróf í fallbaráttu
Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík) - Mjög erfitt að skilja þessa Skota
Sveinn Elías Jónsson (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014
banner
banner
banner