Sumarið gert upp - Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík)
,,Yacine Si Salem kom til okkar fyrir tímabilið en var sendur heim eftir að hafa spilað 9 leiki. (Ég sé það núna að hann var fæddur 1988. Þarf að ná tali af honum og spyrja hvar maður breytir kennitölunni sinni)"
,,Eins og hjá flestum liðum þá fór Grindavík í æfingarferð og í þetta skipti var farið til Olivia Nova eins og árið áður. Nema í þetta skipti mátti kíkja í sólbað sem var víst ekki leyfilegt árið á undan.
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Hafþór Ægir Vilhjálmsson skrifaði pistil fyrir Grindvíkinga og hann má sjá hér að neðan.
Grindavík er bæjarfélag sem vill árangur og gerir alltaf kröfu um að liðið standi sig vel.
Krafan á fyllilega rétt á sér þegar litið er til leikmannahóps Grindavíkur. Í hópnum höfum við einn besta markmann deildarinnar, ég vil ganga svo langt og segja að við eigum líka einn besta bakvörð í deildinni Alexander Magnússon.
Ég þarf hvergi að skafa af því þegar ég segi að við eigum fljótasta mann deildarinnar Magnús Björgvinsson. Við erum með landsliðsmann frá Filippseyjum, en það er hinn fjallmyndarlegi Ray Anthony Jónsson sem tók þátt í Herra Ísland árið 2000. Hérna er blaðaúrklippa úr keppninni
Svo erum við með þjálfara/leikmann sem er nýkominn úr atvinnumennsku sem á góð tvo ár eftir.
En alltaf þarf að styrkja liðið vilji það vera í toppbaráttu. Fengnir voru Michal Pospisil sem átti að sjá um að skora mörkin fyrir okkur en það gekk brösulega. 10 leikir og 0 mörk segir alla söguna. Yacine Si Salem kom til okkar fyrir tímabilið en var sendur heim eftir að hafa spilað 9 leiki. (Ég sé það núna að hann var fæddur 1988. Þarf að ná tali af honum og spyrja hvar maður breytir kennitölunni sinni). Robert Winters spilaði 14 leiki og skoraði 3 mörk. Smá innskæfur og örlítið hægur en það sást vel að hann kunni fótbolta.
Jack Giddens var einnig sendur heim á miðju tímabili við litla hrifningu tugi kvenna á suðurnesjunum.
Inn í klefanum er hlutfallið sirka 50/50 íslendingar og skotar eða englendingar.
Þetta er vandamál þar sem það er mjög erfitt að skilja þessa skota, en ef þú skilur mate, fu*k, lads og well done þá ertu í nokkuð góðum málum.
Svo ég komi með dæmi þá eru þetta kveðjur hjá Paul Mcshane fyrir leiki:
“Paul Mcshane
Right lads lets wrap this up eh!
Mon tae fu*k!!!”.
"Paul Mcshane
thank fu*k well done lads!".
Eins og hjá flestum liðum þá fór Grindavík í æfingarferð og í þetta skipti var farið til Olivia Nova eins og árið áður. Nema í þetta skipti mátti kíkja í sólbað sem var víst ekki leyfilegt árið á undan. Ferðin var vel heppnuð í alla staði, vellirnir fínir og sólin lék við hvern sinn fingur.
En sumarið byrjaði seint hér á Íslandi og það var heldur kalt um að litast þegar horft var á Fylkisvöll þann 2. maí, svo kuldalegt var í lautinni að það var ákveðið að færa leikinn inn í Kórinn.
Það byrjaði ekki gæfulega því eftir 27 mínutur var staðan 2-0 fyrir Fylki og Óskar Pétursson (fyrrum barnaspik eins og Hjörvar H sagði) fór útaf meiddur eftir 16 mínutur.
Liðið sýndi frábæran karakter og vann leikinn 2-3 með sigurmarki í uppbótartíma.
Næsti sigur kom þó ekki fyrr en í 6.umferð. Þegar grasið fór að grænka fór jafnteflunum að fjölga sem urðu 8 talsins og var aðeins besta lið Íslands, KR sem gerðu jafnmörg jafntefli.
Það er áhyggjuefni þegar stigaskorunin er skoðuð því aðeins 9 stig af 23 vinnast á heimavelli sem verður að teljast afar dapurt. Hins vegar það jákvæða í þessu er það að 14 stig af 23 vinnast á útivelli. Til að mynda frækinn sigur gegn ÍBV sem varð til þess að við héldum okkur uppi. Það þarf sterka karektera og góða liðsheild til að fara á Hásteinsvöll með bakið uppvið vegg og aðra löppina í fyrstu deild og taka 3 stig.
Framtíðin er björt í Grindavík og margir efnilegir knattspyrnumenn að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki eins og Hákon Ívar Ólafsson fæddur 1995 sem spilaði tvo leiki í sumar og Daníel Leó Gretarsson sem hefur æft með liðinu seinni part sumars.
Ég hef trú að þessi sterka liðsheild og þessi góði mannskapur geri betri hluti á næsta ári og láti það í hlut annara liða að vera í fallbaráttu þó að það sé ekkert annað lið sem kunni það betur.
Fyrir hönd leikmanna Grindavíkur þá vil ég þakka öllum þeim sem studdu liðið í gegnum súrt og sætt í sumar og vona að sjá fleiri í stúkunni að liðnu ári, ég vil þakka öllum þeim sem koma að rekstri félagsins fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt starf. Einnig vil ég þakka lukkudýrinu okkar Vilmundi Þór Jónassyni fyrir frábæra skemmtun allt árið.
Hafþór Æ. Vilhjálmsson
Sjá einnig:
Sveinn Elías (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014