Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
banner
   fös 14. október 2011 09:15
Sigurbjörn Hreiðarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Afmælisgjöfin kemur síðar
Sumarið gert upp - Sigurbjörn Hreiðarsson (Valur)
Sigurbjörn Hreiðarsson
Sigurbjörn Hreiðarsson
Þessa dagana eru leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Sigurbjörn Hreiðarsson, leikmaður Vals, sér um pistilinn í dag en hann er á leið í annað félag eftir að hafa leikið með Hlíðarendafélaginu nánast sleitulaust frá 1992.Hófum undirbúning fyrir afmælisárið 2011 með að skipta út nokkrum spilurum og fengum aðra í staðin. Þjálfarateymið nýtt. Ekki ný hjá okkur sú uppskrift. Strax var ljóst að þessir nýju virkuðu mjög vel og hópurinn flottur.

Undirbúningsmótin gengu svona glimmrandi vel og unnust bæði sem við tókum þátt í. Liðið var mjög gott í lok leikja og framlengdum leikjum. Aðeins einn leikur tapaðist og töldum við Valsmenn hann ekki með í okkar útreikningum þar sem hann var við Fram og flest í þeim leik líktist annarri íþrótt (sem er yfirleitt stunduð í búri með færri keppendum). Enduðum þar 8 og var það í fyrsta skiptið sem undirritaður hefur séð einn af þjálfurum andstæðings hlaupa inná og sparka boltanum útaf til að fá aðhlynningu á sínum eigin manni á meðan leikur er á fullu!!

Ákveðið var að fara í utanlandsferð til Spánar svona rétt til að hrista hópinn saman. Frábærar aðstæður og verulega gott veður. Mjög vel æft og allir hlutir knattspyrnunnar teknir fyrir nema að vera einum fleiri þar sem var alltaf slétt tala á æfingum og alltaf jafnt í liðum. Það kom okkur í koll síðar. Gaman var að sjá hversu vel þeir nýttu matinn þarna því það var eldað daginn sem við komum út og hélst út ferðina í mismunandi útgáfum þó. Staðurinn ekki sá líflegasti í bransanum en fínn æfingastaður. Borðtennisborðið var vel nýtt þar sem Haukur Páll spilaði fantavel enda með eigin butterfly 3ja stjörnu spaða með sér! Þar skutlaði Sindri sér fullmikið til hægri og þurfti tvo síðustu dagana að liggja á vinstri hlið inná herbergi og fékk þurrhráku frá Rajkó og eitt auga sem er ekki gott að launum! En Sindri náði að panta inn haustlínuna fyrir tískuvöruverslun Sautján á þeim tíma. Vígsla nýrra leikmanna náði nýjum hæðum og er starfsmaður hótelsins ennþá að sækja áfallahjálp eftir að hafa komið inná liðið óboðinn það kvöld!

Við vorum virkilega tilbúnir þegar mótið byrjaði. Ætluðum að halda okkar striki og vera á toppnum þegar það skipti máli á afmælisárinu. Tókum fyrsta þriðjung af miklum krafti og vorum líklegir til afreka. Unnum marga sigra undir lokin og vorum mjög þéttir tilbaka, töpuðum reyndar á 100 ára afmælisdeginum en við höfum nógan tíma til að finna út hvað fór úrskeiðis fyrir næsta aldarafmæli. Annars einkenndist þetta af mikilli og góðri stemningu og Halli tók uppá að vera með skikkjuna.

Ótrúlega fínt frí í boði 21 árs landsliðsins datt svo inn í júní þar sem menn reyndu að upplifa einhvers konar sumarfrísstemningu. Nokkrir dagar og þá hófst alvaran aftur þar sem við runnum laglega á rassg…. Í bikarnum gegn ÍBV aftur heima og náðum ekki nógu góðum öðrum hluta mótsins þó svo að nokkur stig hafi skilað sér í hús. Það var ferlegt að tapa fyrir FH í 12.umferðinni sem sat aðeins í okkur og slökkti á í raun. Við leigðum svo okkar markahæsta leikmann Guðjón Pétur til Svíþjóðar sem styrkti okkur ekki beint fyrir lokaátökin. En gott fyrir Gauja sem er eini leikmaðurinn sem ég þekki sem er með sinn eigin boltapoka aftur í skotti hjá sér og eru þetta rúmlega 20 boltar sem kallinn er með, enda getur það komið sér vel þegar á að æfa auka.

Þriðji hlutinn var svo ekki góður hjá okkur þar sem við duttum úr allri baráttu um eitthvað. Mikil vonbrigði miðað við hvernig mótið byrjaði. Stefndum á að síðasti leikur mótsins skyldi ráða úrslitum á einhvern hátt fyrir okkur en klúðruðum því á teppinu í Garðabæ. Því má kenna fullt af hlutum en helst okkur sjálfum sem gátum gert heldur betur.

Þegar upp er staðið þá var þetta fínt ár. Unnum tvö mót. Vorum inná topp fimm sem voru áberandi sterkust (ef taflan lýgur ekki). Byggðum upp góðan grunn fyrir framhald sem gæti ef vel verður haldið á spöðum lofað góðu. Topp leikmenn komu í félagið bæði fótboltalega og félagslega. Öll getum við svo andað léttar þar sem skírlífi Páls Justeníusens endaði síðustu helgi þegar hann gekk í það heilaga og“ létti“ verulega á sér við það:) sem á eftir að skila sér síðar… Svo vonast maður eftir því að það verði kannski ein æfing þar sem hópurinn fyllir oddatölu svo það sé hægt að æfa einum fleiri sem við réðum illa við og þurfum að bæta, sem og að halda út mót til enda.

Draumur manns um að mæta á Hlíðarenda í síðasta leik mótsins og allt undir gegn KR varð svo að engu. Leikurinn skipti engu máli þegar upp var staðið og verðugir meistarar komu í heimsókn. En við getum kannski litið á árið jákvætt útfrá þeim punkti að af 3 leikjum við Íslands og bikarmeistarana þá fengum við 5 stig og 1 mark á okkur sem er ekki svo slæmt eða?

Valskveðja Sigurbjörn Hreiðars

Sjá einnig:
Sigmar Ingi Sigurðarson (Breiðablik) - Mætti með jólaseríu í staðinn fyrir takkaskó á æfingu
Kristján Valdimarsson (Fylkir) - Þið eruð bara helvítis kæglar
Magnús Þórir Matthíasson (Keflavík) - Við ákváðum að prófa fallbaráttuna
Tómas Leifsson (Fram) - Með leikmann sem er með sveinspróf í fallbaráttu
Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík) - Mjög erfitt að skilja þessa Skota
Sveinn Elías Jónsson (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014
banner
banner