Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 26. janúar 2012 11:00
Guðmundur Benediktsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þakklæti!
Guðmundur Benediktsson
Guðmundur Benediktsson
Mynd: Eiríkur Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þakklæti! Þetta var fyrsta orðið sem kom upp í hugann þegar ég settist niður til að rita nokkur orð um samherja minn, félaga minn og vin minn Steina Gísla sem yfirgaf þetta líf í síðustu viku.

Þakklæti segi ég af því að ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að spila með honum, þakklátur fyrir að hafa lært af honum að reyna gera alla hluti vel, þakklátur fyrir að hafa kynnst honum & fjölskyldu hans og þakklátur fyrir að hafa átt hann sem vin.

Það var haustið 1994, (ég 19 ára) að ég fékk símtal heim á Akueyri. Á línunni var Sigursteinn Gíslason sem nýbúið var að kjósa besta leikmann Íslandsmótsins í knattspyrnu, þá hringdi hann fyrir hönd Skagamanna. Ég mun aldrei gleyma hve stoltur & stressaður ég var yfir því að besti leikmaður á Íslandi var að hringja í mig & reyna að sannfæra mig um að ganga til liðs við hann og hans gulu vini á Skipaskaga.
Úr því varð nú ekki en leiðir okkar áttu sem betur fer eftir að liggja saman síðar á ferlinum, bæði í félagsliði og landsliði.

Steini var lykilmaður á Akranesi í liði sem vann Íslandsmótið ár eftir ár án þess að önnur lið ættu möguleika.

Sigurganga þeirra stöðvaðist reyndar árið '97 & það var engin tilviljun, Steini var meiddur nánast allt tímabilið.

Eftir erfið ár í meiðslum ákvað Steini að breyta til & gekk til liðs við KR fyrir 1999 tímabilið sem er mörgum KR-ingum enn í fersku minni. Þegar ég lít til baka verð ég sannfærðari & sannfærðari um að koma Steina til KR var eitt af lykilatriðunum fyrir lið sem var búið að vera í þrjátíu ára þrautagöngu að eltast við Íslandsmeistartitil.

Hvernig Steini kom inn í hópinn, hvernig hann æfði hverja einustu æfingu á fullu og sætti sig ekki við annað enn sigur var eitthvað sem smitaði út frá sér í aðra leikmenn. Við sáum nokkuð fljótt af hverju hann átti fimm íslandsmeistartitla en við hinir enga!
Þrátt fyrir alla sigurgöngu hans var hann ekki upptekinn af því að vera í sviðsljósinu, hann var bara upptekinn af því að láta samherja sína líta vel út með því að leggja sig allann fram fyrir lið sitt.

Það sást langar leiðir að maðurinn nennti ekki að gera hlutina af hálfum hug og þannig var Steini Gísla. Hvert sem litið er, vinnu, íþróttum eða sem faðir og eiginmaður, allt var gert vel.

Það verður þó að segjast alveg eins og er að hann var gjörsamlega óþolandi í útihlaupum þar sem hann var að hlaupa á hraða sem undirritaður hélt að aðeins Kenýu-menn ættu til.

Fyrsta tímabilið var sem draumur, tvöfaldir meistarar og lífið lék við okkur. Loksins var Ísland-dollan komin í hús hugsuðu margir en ég minnist samtals sem við Steini áttum fljótlega eftir að sigur var í höfn þar sem hann minnti mig á að þetta væri bara byrjunin "við erum að fara að vinna fleiri" sagði meistarinn......

Hann laug engu um það, þrír Íslandsmeistartitlar á næstu fjórum árum var niðurstaðan þrátt fyrir að þjálfara- & leikmannabreytingar væru tíðar á þessum tíma hjá félaginu.

Leikmanna leiðir okkar skildu svo 2004 þegar Steini hóf þjálfarferil sinn sem aðstoðarmaður hjá Víking. Því miður varð þjálfaraferill hans allt of stuttur en það var öllum ljóst að þar var hann ekki síður á heimavelli.

Við kveðjum í dag einn af okkar sigursælustu knattspyrnumönnum, en minningin um frábærann mann lifir.

Guðmundur Ben

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner
banner