Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 26. janúar 2012 12:00
Willum Þór Þórsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sannur sigurvegari
Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
Sigursteinn í leik með KR.
Sigursteinn í leik með KR.
Mynd: Eiríkur Jónsson
Steini Gísla – „eins og hrísla“ bættir þú gjarnan sjálfur við og glettnin, húmorinn og hlýjan streymdi frá þér. Þannig rifjast upp okkar fyrstu kynni þegar þú komst inn í mfl. KR 1987 og það sumar unnum við einnig saman hjá Ágæti. Fljótlega reyndi ég að þar fór sannur sigurvegari. Þú fórst vel með ómælt keppnisskapið í framkomu og athöfnum og alltaf tilbúinn að gefa af þér, keppni og gleði, þetta fínstillta jafnvægi sem gerði þig að óskoruðum leiðtoga.

Keppnisdrifið hugarfar sigurvegarans virtist þér í blóð borið og þér var einkar lagið að búa til keppni í öllu t.d. í hinum ýmsu tækniþrautum og þar stóðst þér nákvæmlega enginn snúninginn. Það ískraði í þér af kátínu þegar þú varst enn að „drilla“ boltanum á ristinnni þegar að það sauð á undirrituðum, „urrandi“, AFTUR! Og svo þegar þú „dippaðir“ boltanum á hausnum hefði sennilega einungis einhver af höfrungaættinni getað keppt við þig. Það var mikil eftirsjá af þér þegar þú gekkst til liðs við Skagamenn. Í upphafi 10. áratugarins varst þú svo lykilmaður þar í sannkölluðu sigurliði sem hampaði 5 Íslandsmeistaratitlum. Við endurheimtum þig svo í Vesturbæinn og má alveg færa fyrir því rök að með þér hafi lóðið komið sem vantaði á þær vogarskálar í eftirminnilegum Íslandsmeistaratitli 1999.

Ég átti því láni að fagna að vinna með þér sem þjálfari þegar Íslandsmeistaratitlarnir 2002 og 2003 komu í hús. Vonin að loknum jafnteflisleik við Fylki í Árbænum var veik og þurfti að treysta á aðra í þeim efnum. Á leið inn í klefa bærðust vangaveltur um möguleika okkar. Fyrsti maður sem mætti mér í klefanum var geislandi kátur Steini Gísla. Ég horfði í brosandi andlitið á Steina og hugsaði hvaðan kemur þessi léttleiki? Þessum áhrifamætti sigurvegarans er erfitt að lýsa, en speglast að einhverju leyti í þessari fleygu setningu sem fylgdi, sem ég geymi og aldrei gleymi: „Það er ekki séns að Óli frændi tapi fyrir Alla frænda og það á Skaganum.“ Það gekk eftir og Steini Gísla hampaði enn einum titlinum.

Þínir eiginleikar og leiðtogahæfileikar nýttust þér svo sannarlega í þjálfun og það finn ég sem eftirmaður þinn að það var gæfuspor fyrir Leikni að fá þig til sín sem þjálfara. Ég er stoltur af því að fá tækifæri til að vinna á þínum grunni og Steini Gísla á risastórt pláss í hjörtum Leiknismanna. Eins og í íþróttunum hugsaðir þú ávallt vel um þína og aðdáunarvert fannst mér alltaf hve samrýmd þið hjón, þú og Anna voruð í keppni, starfi og leik íþróttanna í gegnum leikmanna- og þjálfaraferilinn og svo þátttöku barnanna. Áleitnar spurningar vakna og fátt er um svör og vanmáttakendin leitar á. Megi algóður Guð styrkja þína nánustu og hugur minn er hjá Önnu Elínu, Magnúsi, Unni og Teiti.

Blessuð sé minning þín kæri vinur og foringi
Willum Þór Þórsson

Sjá einnig:
Himnasending í Efra-Breiðholtið - Óttar Bjarni Guðmundsson
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner
banner