Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   fim 26. janúar 2012 14:00
Óttar Bjarni Guðmundsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Himnasending í Efra-Breiðholtið
Óttar Bjarni Guðmundsson
Óttar Bjarni Guðmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigursteinn Gíslason tók við stjórnartaumunum hjá Leikni Reykjavík í haustbyrjun árið 2008. Sú ráðning átti eftir að vera mikið gæfuskref fyrir klúbbinn. Með Steina sem þjálfara hófst mikill uppgangur hjá félaginu, enda Steini sigurvegari af Guðs náð. Til marks um það þá spilaði hann stundum með okkur þegar það vantaði mann á æfingu og flest öll skiptin ef ekki öll þá vann hans lið. Þvílíkur einstaklingur!

Fyrsta sumarið undir stjórn Steina fór þó ekki eins vel á stað og menn vonuðust eftir. Fyrsti sigurinn kom ekki fyrr en í 7.umferð en þar áður höfðum við steinlegið fyrir Víkingum á heimavelli. Þrátt fyrir þessa slöku byrjun var ekkert stress í hópnum. Steini hafði einstakt lag á okkur leikmönnum og hvatti menn sífellt áfram og barði í okkur stálið. Svo fór að við náðum nokkrum sigrum og enduðum tímabilið í 7. sæti. Mikil ánægja var þó með störf Steina, enda ekki bara góður þjálfari heldur frábær maður sem leikmönnum þótti vænt um. Hann var með mjög ungan hóp í höndunum og því litu allir upp til hans með mikilli virðingu.

Árið 2010 fór í hönd og tímabilið sem við áttum var ótrúlegt. Liðið vann og vann og fátt virtist ætla að koma veg fyrir það að Leiknir myndi spila í deild þeirra bestu árið 2011. Hæfni Steina sem þjálfari kom bersýnilega í ljós, enda náði hann því besta úr hverjum leikmanni. Tímabilið endaði þó á því að við klúðruðum þessu og enduðum í 3 sæti og vonbrigðin leyndu sér ekki, en ef litið er heildstætt á tímabilið, þá var það frábært. Niðurstaðan var því besti árangur Leiknis frá upphafi, 3. sætið í 1. deild.

Í blábyrjun tímabilsins 2011 þurfti Steini að draga sig í hlé. Ástæðan var illkynja krabbamein, hans verðugasti andstæðingur hingað til. Andrúmsloftið lamaðist í hópnum. Þjálfarinn okkar, maðurinn sem við litum upp til fékk þennan illvíga sjúkdóm. Það var gríðarlega erfitt að sjá Steina hverfa á braut til þess að berjast við veikindin og hafði þetta mikil áhrif á liðið og leikmenn. Steini hélt þó áfram að vera í kringum okkur og að sjá hvernig hann tók á þessum veikindum sínum með jafnmiklu æðruleysi og hann gerði var ótrúlegt. Hann stóð alltaf á bak við okkur og hvatti okkur eftir fremsta megni þrátt fyrir sína erfiðu baráttu.

Steini kvaddi þennan heim þann 16. janúar eftir stutta en harða baráttu við krabbameinið. Það er erfitt að sætta sig við það að sjá á eftir jafnmiklum öðlingi og Steini var. Við hjá Leikni sjáum ekki einungis eftir frábærum þjálfara, heldur stórkostlegri persónu sem þótti vænt um alla. Hann var sanngjarn, skilningsríkur, lét sig alla varða, gerði aldrei greinamun á fólki og allir voru jafnir fyrir honum. Maður gat leitað til hans með öll sín vandamál, alltaf var hann boðinn og búinn til að hjálpa manni að leysa úr þeim.

Það verður skrýtið að koma upp í Leiknishús og heyra ekki raulið í Steina þegar hann labbar inn ganginn uppí Leiknishúsi. Steini á mjög stóran part í uppgangi Leiknis og mun hans þáttur aldrei verða gleymdur. Það var mikil Guðs gjöf að fá þennan einstaka mann í okkar litla félag. Hvíldu í friði elsku vinur!

Óttar Bjarni Guðmundsson
Leikmaður mfl. Leiknis

Sjá einnig:
Viðurkenndur afbragðsmaður - Eysteinn Húni Hauksson og Óli Stefán Flóventsson
Sannur sigurvegari - Willum Þór Þórsson
Einn af bestu sonum fótboltans kvaddur - Logi Ólafsson
Þakklæti! - Guðmundur Benediktsson
Sigurvegari af Guðs náð - Ólafur Adolfsson
Vinnusemi og leikgleði - Gunnlaugur Jónsson
Minning um upphafsárin í Vesturbænum - Guðni Grétarsson, Rúnar Kristinsson og Steinar Ingimundarson
,,Lífið er ekki dans á rósum" - Sigurður Elvar Þórólfsson og Valdimar K. Sigurðsson
banner
banner