Sigþóra Guðmundsdóttir, formaður knattspyrnuráðs kvenna ÍBV skrifar
Hver var tilgangurinn með því að kaupa réttinn af kvennaknattspyrnu á Íslandi?
Mér virðist eini tilgangurinn vera sá að minnka umfjöllunina og þar af leiðandi áhugann á íslenskri kvennaknattspyrnu. Það er ekki nóg að henda einni vél á einn leik í umferð og senda út.
Mér virðist eini tilgangurinn vera sá að minnka umfjöllunina og þar af leiðandi áhugann á íslenskri kvennaknattspyrnu. Það er ekki nóg að henda einni vél á einn leik í umferð og senda út.
Hvar er umfjöllunin?
Á síðasta tímabili fengum við metnaðarfulla umfjöllun, samantekt og klippur úr leikjum allra liða. Ég get ekki séð annað en að einn af tilganginum hafi verið að minnka umfjöllunina sem við fengum þó í fyrra.
Núna státar Stöð 2 Sport af því að hafa „besta sætið“, en fyrir hvern?
Búið er að sýna 5 leiki, Breiðablik-Fylkir, Valur-Selfoss, Stjarnan-KR, Valur-Stjarnan og KR-Valur. Næsti leikur verður Breiðablik-Stjarnan! Kannski rétt að benda mönnum á að í deildinni spila tíu lið, en ekki bara „þessi stóru“!
Ef að metnaðurinn fyrir hlutunum er ekki meiri en þetta, þá mega menn skammast sín. Ef að peningar eru vandamálið þá áttu menn kannski að leyfa þeim sem gerðu þetta vel í fyrra, bara að halda því áfram. Að senda mann á leik, með eina vél, með engar endursýningar eða almenna umfjöllun er fyrir neðan allar hellur.
Að lokum vil ég minna menn á fögru orðin sem féllu við undirskrift samnings þess efnis
„Samantektarþættir frá Pepsi-deild kvenna verða sýndir á Stöð 2 Sport og íslenska boltanum verður einnig gerð ítarleg skil í öðrum miðlum 365 miðla. Umfjöllun um Pepsi-deildir karla og kvenna verður á Vísi.is og í fréttatímum Stöðvar 2.“
http://www.365midlar.is/Pages/81?NewsID=480 og
„Samningurinn tryggir meiri og ítarlegri umfjöllun um Pepsi-deildirnar en áður hefur verið í boði. Sýndir verða 24 þættir af Pepsi-mörkunum í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport strax eftir hverja umferð og þættirnir verða endursýndir á laugardögum í opinni dagskrá á Stöð 2. Þar verða öll mörkin og helstu atvik hverrar umferðar sýnd og tekin til vandaðrar umfjöllunar.
Þá verða einnig sýndir reglulega, bæði á Stöð 2 Sport og Stöð 2, örþættirnir Markaregn með 5 fallegustu mörkum hverrar umferðar. Þeir verða einnig aðgengilegir á Vísi.is.
Samantektarþættir frá Pepsi-deild kvenna verða sýndir á Stöð 2 Sport og íslenska boltanum verður einnig gerð ítarleg skil í öðrum miðlum 365 miðla. Umfjöllun um Pepsi-deildir karla og kvenna verður á Vísi.is og í fréttatímum Stöðvar 2.“
http://www.visir.is/storaukin-umfjollun-%7C-pepsi-morkin-i-opinni-dagskra/article/2012120429359
Með von um að þessar línur veki einhvern af fegurðarblundi,
Sigþóra Guðmundsdóttir, formaður knattspyrnuráðs kvenna ÍBV.
Athugasemdir