Lookman hefur skorað 11 mörk og gefið 9 stoðsendingar í 41 landsleik. Hann var lykilmaður í U20 og U21 landsliðum Englands áður en hann lék sinn fyrsta leik fyrir A-landslið Nígeríu.
Tyrknesku stórveldin Fenerbahce og Galatasaray hafa verið að styrkja sig gífurlega mikið á undanförnum árum og virðast ekki ætla að hægja mikið á sér.
Fenerbahce er að reyna við Ademola Lookman, sóknarleikmann Atalanta og nígeríska landsliðsins, og hefur boðið 40 milljónir evra fyrir.
Kaupin eru þó nokkuð frá því að vera frágengin þar sem Fenerbahce er ekki með svo mikinn pening í kössum sínum og þarf því að semja um bankaábyrgð til að ljúka við skiptin. Félagið á einnig eftir að ljúka samningaviðræðum við Lookman um kaup og kjör, auk þess að semja við Atalanta um greiðsludreifingu fyrir kaupverðið.
Lookman gæti verið svar Fenerbahce við Victor Osimhen sem Galatasaray keypti fyrir metfé síðasta sumar. Þeir eru samherjar í sterku landsliði Nígeríu og hefur Osimhen verið að raða inn mörkum í tyrkneska boltanum.
Lookman, 28 ára, hefur komið að 82 mörkum í 137 leikjum á þremur og hálfu ári hjá Atalanta.
Athugasemdir


