Shaina Faiena Ashouri er búin að skrifa undir tveggja ára samning við Víking R. en hún hefur verið í miklu lykilhlutverki hjá liðinu frá komu sinni fyrir tveimur árum.
Víkingar söknuðu hennar sárlega þegar hún hélt til Kanada í fyrra til að spila með AFC Toronto og skánaði gengi liðsins til muna eftir endurkomu Shaina.
Shaina er fædd og uppalin í Bandaríkjunum en flutti fyrst til Íslands sumarið 2021 til að spila með Þór/KA í efstu deild og skipti svo yfir til FH. Hún skein skært í Hafnarfirði og var meðal allra bestu leikmanna Lengjudeildarinnar. Hún skipti svo til Víkings og fór beint í lykilhlutverk í byrjunarliðinu.
Shaina er mikill markaskorari og hefur gert 14 mörk í 30 leikjum með Víkingi í Bestu deildinni.
Hún verður þó ekki með stærsta hluta næstkomandi sumars eftir að hafa slitið krossband síðasta haust.
„Það er Víkingum mikil ánægja að hafa náð samningi við þennan frábæra leikmanni sem hefur svo sannarlega sett sitt mark á velgengni liðsins undanfarin ár og vonandi að svo megi verða áfram," segir meðal annars í tilkynningu frá Víkingum.
Þá er hin bráðefnilega Ásta Sylvía Jóhannsdóttir búin að skrifa undir þriggja ára samning. Hún er fædd 2010 og hélt hreinu í 6-0 sigri á Þrótti R. í sínum fyrsta keppnisleik nú í janúar þegar liðin mættust í Reykjavíkurmótinu.
Hún á leiki að baki fyrir U15 landslið Íslands og var valin í æfingahóp með U16 landsliðinu fyrr í vetur.
Athugasemdir




