banner
   fös 06. september 2019 14:14
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Dr. Football 
Verða þjálfaraskipti í Árbænum eftir tímabilið?
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þær sögur verða háværari að Helgi Sigurðsson verði ekki áfram þjálfari Fylkis á næsta tímabili. Ólafur Ingi Skúlason, núverandi fyrirliði liðsins og fyrrum landsliðsmaður, hefur verið orðaður við starfið.

Hjörvar Hafliðason ræddi um þetta í hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football.

„Mínir menn í Árbænum segja að Helgi Sigurðsson eigi þrjá leiki eftir af þjálfaraferli sínum í Árbænum," sagði Hjörvar og Kristján Óli Sigurðsson greip þá boltann:

„Miðað við sem maður heyrir þá er nokkuð ljóst að fyrirliðinn er að taka við. Hann er að stíga sín fyrstu skref í þjálfun og fær alvöru verkefni. Mér finnst árangur Fylkis hafa verið ásættanlegur miðað við mannskap. Helgi hefur gert fína hluti þarna," sagði Kristján.

Ólafur, sem er uppalinn Fylkismaður, hefur verið að afla sér þjálfararéttinda og ljóst að hugur hans leitar þangað.

„Ég er sammála því að árangurinn sé fínn en hann er ekkert meira en það. Ég þekki Helga nokkuð vel, ég spilaði og æfði með honum. Hann er skemmtilegur strákur, það kom mér á óvart að hann færi svona langt í þjálfun svona snemma," sagði Mikael Nikulásson.

Hjörvar veltir því fyrir sér hvort Helgi hafi mögulega „tapað klefanum" eftir að hafa rifist við Stefán Loga, markmann liðsins.

Helgi er að klára sitt þriðja tímabil með Fylki. Undir hans stjórn komst liðið upp úr B-deildinni 2017 og endaði svo í 8. sæti í fyrra. Sem stendur sitja Fylkismenn í 9. sæti í Pepsi Max-deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner