VISA-bikarinn hefst með tveimur leikjum í kvöld. UMFL mætir Aftureldingu þar sem Þorri Björn Gunnarsson fyrirliði Íslandsmeistara Fram í handbolta leikur með fyrrnefnda liðinu. Hann er þó ekki eini handboltamaðurinn sem verður að spila í kvöld því í Tunglinu sem mætir Reyni í Sandgerði eru margar handboltakemur. Tunglið er raunar utandeildarlið sem heitir Hunangstunglið en það tekur þátt í VISA-bikarnum í ár.
Einn handboltamaðurinn í liði Tunglsins er Bjarki Sigurðsson fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður með liðum eins og Aftureldingu, Víkingi og Drammen í Noregi.
Við heyrðum aðeins í Bjarka og spurðum hann fyrst að því hvar hann spilaði á fótboltavellinum. ,,Ég stend á milli stanganna, tel mig feikimikið efni en það er að uppgötvast bara að eins of seint. Var á árum áður margvarðahrellir og fannst mönnum ég of áberandi þar og því færður í rammann."
Margir fleiri handboltamenn eru í liði Tunglins. ,,Já, nokkuð margir handknattleiksmenn í röðum liðsins eða ca. 11stk en við höfum nú einnig dómara í handknattleik, það er Júlli Sig. Haukamaður, einnig kemur einn úr körfunni en það er Eiríkur Ön(undarson í ÍR).
Handboltamennirnir í liðinu eru:
Þjálfari liðsins og yfirtunglari Hjörtur Arnarson, landsliðsmann í knattsp. með víking, handknattl. með Víking og Aftureldingu
Valgarð Thorodsen, Valsari, Víkingur, Aftureldingsmaður.
Þorkell Guðbrandsson, Afturelding, ÍR, hestamaður
Björn Guðmundsson, Víkingur, Afturelding, Fylkir in the old days...
Hilmar Stefánsson hinn knái hornamaður með Aftureldingu og áður KA.
Þröstur Helgason, Vikingur, Wuppertal en því miður lagt skóna á hilluna.
Hlynur Morthens, Víkingur, Grótta-KR og nú Fylkir.
Örn Viðarsson, hundtryggi aðstoðarþjálfari í Viking,
Björn Hákonarson, á nokkra leiki með Víking, sama má segja um Júlíus Hafstein.
Leikurinn gegn Reyni er klukkan 20:00 í Sandgerði í kvöld en andstæðingar Tunglins eru í annarri deild í sumar. Aðspurður út í það hvort Tunglið telji sig eiga góða möguleika sagði Bjarki léttur á því: ,,Já, tel okkur eiga mikla möguleika, við ætlum okkur að koma á óvart í þessari keppni. Við höfum á að skipa góðu liði sem byggir á sterkri vörn, góðri miðju og fljótum framherjum. Þetta er nú bara grín, við ætlum okkur bara að hafa gaman af þessu svo verður annað að koma í ljós. Vænti þess að Reynir S. séu mjög sterkir en á góðum degi getum við alveg strítt svona liðum," sagði hann að lokum í samtali við Fótbolti.net en það verður spennandi að sjá hvernig Tunglinu gengur í kvöld gegn Reynismönnum.
Athugasemdir