Man City leiðir kapphlaupið um Musiala - Man Utd hefur áhuga á Toney - Arsenal endurskoðar áætlanir
banner
   mán 01. apríl 2024 21:02
Elvar Geir Magnússon
Höddi Magg segir Víkinga sýna agaleysi - „Getur ekki hagað þér eins og þér sýnist“
Úr viðureign Víkings og Vals sem nú stendur yfir.
Úr viðureign Víkings og Vals sem nú stendur yfir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cardaklija fékk rautt spjald.
Cardaklija fékk rautt spjald.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Halldór Smári Sigurðsson verður í banni þegar Víkingur mætir Stjörnunni í opnunarleik Bestu deildarinnar á laugardag.

Hann fékk sitt seinna gula og þar með rautt fyrir groddaralega tæklingu á Lúkas Loga Heimisson í leik Víkings og Vals í Meistararar meistaranna.

Sölvi Haraldsson sem textalýsir leiknum hér á Fótbolti.net segir að brotið hefði getað verðskuldað beint rautt og hann er ekki einn á þeirri skoðun.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 -  3 Valur

„Í raun og veru er hann bara heppinn að fá tvö gul í stað þess að fá beint rautt þarna. Hann á bara skilið að fara í sturtu, þetta var heimskuleg tækling," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarlandsliðsþjálfari í lýsingu á RÚV 2 en leikurinn er í gangi.

Víkingar mótmæltu seinna spjaldinu harðlega, Halldór Smári mótmælti sjálfur og Oliver Ekroth fékk gult fyrir viðbrögð sín.

„Ég skil ekki hvernig hann getur verið að malda í móinn. Það getur enginn Víkingur mótmælt þessum ekki einu sinni þeir allra hörðustu. Hann var allavega búinn að brjóta tvisvar af sér áður en hann fékk gult í fyrri hálfleik. Þetta gengur ekki mikið lengur," sagði Hörður Magnússon.

Svo fékk markvarðaþjálfari Víkings, Hajrudin Cardaklija, rautt á bekknum fyrir mótmæli.

„Þetta er bara agaleysi. Þú getur ekki hagað þér eins og þér sýnist. Menn þurfa aðeins að róa sig," sagði Hörður.

„Ég skil ekki hvað Víkingarnir eru að mótmæla, þetta er bara hárrétt hjá dómara leiksins að gefa Halldóri Smára rautt," sagði Jóhannes Karl.

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings er kominn með gult spjald en staðan í leiknum er 1-1 þegar þessi orð eru skrifuð.

Hér að neðan má sjá brottvísun Halldórs Smára


Athugasemdir
banner
banner
banner